Skoðaði heilsíðu teiknimyndasögu Framsóknar af 20% afslætti húsnæðislána. Hélt, að ég skildi yfirboðið betur en áður. En allt var enn við það sama. Tillaga Framsóknar gerir ráð fyrir, að útlendir kröfuhafar gömlu bankanna eigi peningana. Þeir tapi svo miklu á gömlu bönkunum, að þeir verði bara fegnir að fá að tapa enn meira. Þeir gefi því eftir þessi margfrægu 20% og allir lifi kátir til enda veraldarinnar. Teikniserían skýrir ekki, hvernig stendur á fögnuði erlendra kröfuhafa. Enda er ekki hægt að ætlast til, að teiknisería skýri yfirboð í reikningsdæmi, sem byggist á hreinni óskhyggju.