Teknir í nefið

Greinar

Íslenzkur forstjóri erfðafyrirtækis í Delaware tók forsætisráðherra okkar í nefið í fyrravetur og fékk honum í hendur frumvarp til að láta Alþingi samþykkja. Ef forsætisráðherra hefði þá þegar vitað um, að þjóðin vildi líka láta taka sig í nefið, væri frumvarpið orðið að lögum.

Skoðanakönnun DV um meirihlutastuðning þjóðarinnar við lagafrumvarp deCode Genetics birtist eftir að Alþingi hafði ákveðið að fresta málinu til hausts og endurskoða það í millitíðinni. Sú endurskoðun hefur farið fram og frumvarpið er orðið illskárra en það var.

Mikil umræða hefur farið fram um málið. Er óhætt að segja, að höfundar og stuðningsmenn frumvarpsins hafa tapað þessari umræðu í nánast öllum atriðum, sem máli skipta. Samt verður frumvarpið að lögum, af því að forsætisráðherra og þjóðin vilja láta taka sig í nefið.

Upplýst er, að það er fyrirtæki í Delaware, sem fær einkaleyfið. Forstjóri þess hefur lýst áhuga á að flytja það til Íslands til að friða gagnrýnendur fram yfir afgreiðslu Alþingis. Þegar einkaleyfið er komið í höfn, mun hann finna út, að annmarkar séu á slíku.

Upplýst er, að úrelt er að veita einkaleyfi á þessum tímum samkeppnishugsjóna. Ef verið væri að stofna Áfengisverzlun ríkisins eða Íslenzka aðalverktaka núna, mundu fyrirtækin engin einkaleyfi fá. Einkaleyfi í höndum deCode Genetics er hrapalleg tímaskekkja.

Þótt fyrrum væri talið hagkvæmt að veita einkaleyfi í fiskútflutningi til að halda uppi verði í útlöndum, þykir slíkt ekki hagkvæmt lengur. Þótt svo væri, mundi hagfræði nútímans segja okkur, að slíkt einkaleyfi eigi ekki að gefa, heldur leigja þeim, sem bezt býður.

Upplýst er, að persónuverndar er ekki gætt í málamiðlunarfrumvarpinu. Menn verða sjálfir að hafa frumkvæði að því að banna notkun upplýsinga um sig. Látið fólk getur ekki haft slíkt frumkvæði. Upplýsingar um látið fólk geta síðan skaðað lifandi afkomendur þess.

Forsætisráðherra og ýmsir fleiri hafa skýrt frá, að fyrir nokkrum áratugum og raunar til skamms tíma hafi persónulegar upplýsingar um fólk legið á glámbekk í heilbrigðisstofnunum. Þetta virðist hugsað sem röksemd fyrir því, að ekki þurfi að gæta slíkra upplýsinga nú.

Þetta er svipað og að segja, að úr því að Landsvirkjun hafi áður eyðilagt Hágönguhveri, megi hún líka eyðileggja Eyjabakka og Þjórsárver. Upplýsingar um, að hlutir hafi ekki verið í lagi áður, geta aldrei orðið forsenda þess, að þeir megi ekki heldur vera í lagi framvegis.

Ekki má heldur gleyma, að stakar og ótengdar upplýsingar gamla tímans hafa ekki skapað neina hættu á borð við þá, sem stafar af krosstengdum upplýsingum. Því meira sem ólíkar upplýsingar eru sameinaðar og gerðar miðlægar, þeim mun meiri líkur eru á misnotkun.

Þótt frumvarpið sé enn meingallað frá sjónarmiði vestrænnar hagfræði og vestrænnar persónuverndar, verður það að lögum í vetur, af því að austrænt þenkjandi forsætisráðherra, þægur meirihluti Alþingis og heimskur meirihluti þjóðarinnar vilja láta taka sig í nefið.

Menn fagna því, að forsætisráðherra hefur sent læknum eitt hinna frægu bréfa sinna í stíl þeirra, sem hann hafði áður sent Sverri Hermannssyni og Heimi Steinssyni. Þetta er sá stjórnunarstíll, sem þrælaþjóðin hefur ákveðið, að henti stöðu sinni í þróunarstiganum.

Allt er þetta auðvitað samkvæmt leikreglum. Ef nógu margir vilja láta taka sig í nefið, þá eru þeir teknir í nefið og draga hina með sér, sem sjá blekkinguna.

Jónas Kristjánsson

DV