George Bush hefur slæman feril í umhverfismálum sem ríkisstjóri í Texas. John McCain hefur hins vegar góðan feril í umhverfismálum sem þingmaður. Samt voru auglýsingar í umhverfismálum meðal þess, sem varð McCain að falli í stóru prófkjörshrinunni í síðustu viku.
Tveir auðugir vinir Bushs stofnuðu samtök, sem borguðu teppalagningu auglýsinga gegn McCain, þar sem haldið var fram, að hann hefði ekki staðið sig í umhverfismálum. Enginn þeirra, sem stóðu að samtökunum, hafði áður sýnt neinn feril til stuðnings umhverfismálum.
Þetta sýnir, hvað hægt er að gera, ef nóg er til af peningum og ófyrirleitni. Þá er hægt að segja með árangri, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart. Sumir sáu gegnum áróðurinn og aðrir ekki, en meðalniðurstaðan varð, að fleiri urðu fráhverfir McCain en snerust til hans.
Það er gamalkunn staðreynd, að margir fara að trúa lyginni, ef hún er endurtekin nógu oft. Þar sem lygin á í samkeppni við sannleikann, hafa menn hingað til verið hræddir við að teppaleggja kosningabaráttu með öfugmælum. Í bandarísku forkosningunum var sá múr rofinn.
Þar sem menn hafa nú séð, að teppalagning lyganna ræður úrslitum um, hver verður forsetaefni annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum, má búast við, að fjandinn verði laus í framtíðinni. Hann mun líka koma til Íslands, því að hér læra menn fljótt nýjabrumið.
Kjósendur á Íslandi eru ekkert ólíkir kjósendum í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum. Þeir hafa að meðaltali ekki þroska til að sjá gegnum lygina. Þótt hún fæli suma frá, eru þeir fleiri, sem hlaupa eftir henni, jafnvel þótt aðgangur sé að réttum upplýsingum.
Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum tala nú í auknum mæli um, að auðræði sé að leysa lýðræði af hólmi. Bush varði 5,2 milljörðum íslenzkra króna til að sigra McCain og fékk að auki milljarðastuðning í óbeinum auglýsingum á borð við ofangreinda teppalagningu.
Ástandið er engan veginn alvont í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum er meira gegnsæi í þjóðmálunum. Nánast allt er vitað um, hvaðan peningar koma í kosningabaráttu og hvert leið þeirra liggur. Þess vegna er hægt að kortleggja vandann þar, vega hann og meta.
Hér á Íslandi eru hins vegar engin lög til að vestrænum hætti um fjárreiður stjórnmálaflokka og kosningabaráttu einstaklinga og flokka. Ríkisstjórnarflokkarnir eru andvígir gegnsæi. Þess vegna höfum við ekki sömu varnir gegn auðræðinu og Bandaríkjamenn hafa þó.
Við sáum það þegar í fyrra, að flokkur, sem ekki getur útvegað sér meira en tíu milljónir króna í kosningabaráttu með eðlilegum hætti, ver sextíu milljónum króna til hennar. Við höfum sterkan grun um, hvernig Framsóknarflokkurinn er rekinn, en getum ekki sannað það.
Með vaxandi auðsæld íslenzkra stórfyrirtækja má búast við, að peningar frá þeim streymi í auknum mæli til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka, sem eru þessum fyrirtækjum að skapi. Með innleiðingu auðræðis verður áróður ósvífnari og þéttari en hann hefur verið.
Ef kjósendur væru næmari fyrir rökum og raunveruleika, gæti lýðræðið staðið sig gegn innreið auðræðis og staðreyndir staðið sig gegn teppalagningu lyginnar. En fréttirnar að vestan tala sínu máli. Nógu margir kjósendur eru nógu blindir til að grafa undan lýðræðinu.
Kosningabarátta Bushs gegn McCain sýnir, að ástandið er orðið þannig, að með auðmagni er hægt að ná árangri í að segja, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart.
Jónas Kristjánsson
DV