Handrukkun er aðferð neðanjarðarhagkerfis dópsala til að halda uppi sínum lögum og sínum rétti gegn lögum og rétti almannavalds í landinu. Hótanir handrukkara ógna grunni þjóðfélagsins, því að þær knýja fólk til að taka ótta við handrukkara fram yfir ótta við almannavaldið í landinu.
Svo langt gengur þetta, að lögreglumaður á Keflavíkurvelli neitar að kæra handrukkara fyrir líkamsárás. Við slíkar aðstæður þýðir lítið fyrir froðusnakk lögreglunnar að mæla með því í Moggaviðtali á fimmtudaginn, að fólk fari að kæra handrukkun. Hann verður fyrst að sannfæra starfsbræðurna.
Viðtalið við froðusnakkinn sýnir uppgjöf lögreglunnar. Hún kann betur við sig í ofsóknum gegn hugleiðslufólki í Falun Gong eða andstæðingum stórvirkjana, heldur en í baráttu við hina raunverulega terrorista landsins, þá sem eru að reyna að kollvarpa þjóðskipulaginu með innleiðingu handrukkunar.
Yfirmenn lögreglunnar eiga að kynna sér, hvernig farið var að í Bandaríkjunum, þegar mönnum var farið að ofbjóða yfirgangur mafíunnar og stuðningur lögreglumanna við hana. Mafíósar voru einfaldlega hundeltir dag og nótt og teknir fyrir litlu glæpina, þegar ekki var hægt að sanna þá stóru.
Al Capone var settur inn til margra ára fyrir of hraðan akstur og annað slíkt, sem óhjákvæmilega kemur í sarpinn, þegar vel er fylgzt með terroristum neðanjarðarhagkerfisins. Í stað þess að leyfa neðanjarðarhagkerfinu að terrorisera almenna borgara var lögreglan látin terrorisera mafíuna.
Að svo miklu leyti sem yfirmenn lögreglunnar skortir heimildir til að ráðast hart, fljótt og örugglega gegn handrukkurum og yfirmönnum þeirra, þá getur hún farið fram á þær við dómsmálaráðuneytið, sem getur síðan kallað á þverpólitískan stuðning við nauðsynlegar lagabreytingar.
Í stað þess að hefja slíkt ferli sendir lögreglan froðusnakk á vettvang Moggans til að segja, að ástandið sé ekki eins slæmt og af sé látið; þetta séu meira hótanir handrukkara heldur en athafnir; þetta sé ekki verra en á Norðurlöndunum; fólk eigi ekki að kaupa dóp. Allt eru þetta undanbrögð.
Neðanjarðarhagkerfið er farið að vaða svo uppi, að siðblint ríkissjónvarp Sjálfstæðisflokksins varð á fimmtudagskvöldi að sérstöku málgagni vélhjólaklúbbsins Fáfnis, þar sem menn lifa af tekjum utan skattkerfisins og reyna að komast inn í alþjóðahreyfingu Vítisengla. Hvað með skattrannsókn þar?
Bezta leiðin til að láta landslög sigra neðanjarðarlög er svo, að ríkið yfirtaki sölu fíkniefna og kippi þannig rekstrargrundvelli undan fíkniefnakóngum og handrukkurum.
Jónas Kristjánsson
DV