Þá eyðsla – nú doði.

Greinar

Samsteypustjórnin í Reykjavík hefur enn sem komið er lítt flaggað áþreifanlegasta afreksverki sínu á kjörtímabilinu. Hún ber sér ekki á brjóst fyrir að hafa mokað snjó af gangstéttum ekki síður en götum borgarinnar.

Kannski stafar hógværðin af því, að hún hefur jafnframt leyft hjólreiðar á gangstéttum. Þannig hefur hún auðveldað hinum fótgangandi umferð að vetrarlagi, en gert hana erfiðari og hættulegri að sumarlagi.

Í samgöngumálum eru hjólreiðamenn því hinir raunverulegu sigurvegarar kjörtímabilsins, meðan hinir fótgangandi hafa bæði fengið plús og mínus. Og stóru orðin gegn blikkbeljum hafa sem betur fer ekki leitt til ofsókna gegn akandi fólki.

Í framkvæmdum hefur ruglazt hinn hefðbundni skilningur á hugtökum um hægri og vinstri. Hin fyrri einsflokksstjórn hafði hrósað sér af einu stóru og eftirminnilegu átaki á svo sem hverjum tveimur kjörtímabilum.

Á þessu kjörtímabili samsteypustjórnar hefur hins vegar ekki vottað fyrir neinu átaki á borð við hitaveitu, malbikun og Breiðholt. Framhald grænu byltingarinnar hefur verið hægfara og skolpleiðslumálið sefur værum svefni.

Keyptir hafa verið togarar, reist dagheimili fyrir börn og dvalarheimili fyrir aldraða, svo og opnaðar æskulýðsmiðstöðvar. Umfang slíkra framkvæmda er hvorki meira né markvissara en Reykvíkingar þekkja frá fyrri kjörtímabilum.

Samsteypustjórnin hefur varpað fyrir róða hugmyndum einsflokksstjórnarinnar um undirbúning nýrra hverfa á Korpúlfsstaðatúni. Hún hefur drepið slíkum kostnaðarmálum á dreif og bjargað lóðum fyrir horn með því að fylla í eyður byggðra svæða.

Átökum einsflokksstjórnarinnar hafði fylgt fjáraustur og tilsvarandi tómahljóð í borgarkassanum. Í rósemi samsteypustjórnar þessa kjörtímabils hefur fjárstreymið hjaðnað og hinn sameiginlegi sjóður eflzt.

Þannig hefur hægrisinnuð varfærnisstefna í fjármálum hjá svokölluðum vinstri flokkum tekið við af vinstrisinnaðri útgjaldastefnu hjá svokölluðum hægri flokki. Getur svo hver kjósandi metið fyrir sig, hvað honum finnst betra. Eða skrítnara.

Þegar doði og sparnaður leysa átök og eyðslu af hólmi, kemur það einna harðast niður á skipulagi og þróunarstefnu. Þar hafa líka vonbrigðin orðið mest, því að margir reiknuðu með nýjum straumum hjá nýjum stórlöxum.

Að vísu kostar mikið fé að skella sér út í framkvæmdir við ný hverfi. En einnig er eftirsjá að eyðunum í gamla borgarlandinu, sem verið er að fylla. Framsýnna væri að eiga þessi svæði til óútreiknanlegrar framtíðar.

Orkan hefur farið í að kæfa Korpúlfsstaðastefnuna og taka upp Rauðavatnsstefnu í skipulagsmálum. Samfara draumórahjali um flutning flugvallar og íbúðabyggð í Vatnsmýrinni hefur þetta drepið nýju skipulagi á dreif.

Hin góða hugmynd um þéttingu byggðar hefur fengið lélega útrás í blettafyllingu og flugvallarskýrslum. Á meðan hefur verið frestað átaki við að semja um lóðir Laugavegssvæðisins og að efna þar til alþjóðlegrar samkeppni um þétta byggð.

Í dauflegri kosningabaráttu eins flokks og samsteypu hefur ekki verið fjallað nægilega um hin mikilvægu atriði, sem hér hafa verið rakin.

Hins vegar hefur þar í löngu máli verið fjallað um atriði, sem staðfesta, að stjórnir komi og fari, en stjórnarhættir séu í stórum dráttum eins.

Jónas Kristjánsson

DV