Þá það

Greinar

“Þá það,” sagði þáverandi fjármálaráðherra Nýja- Sjálands, Roger Douglas, þegar honum var árið 1984 bent á, að umbætur hans í efnahags- og fjármálum mundu kosta ósigur í næstu þingkosningum. Hann vildi fremur marka spor en sitja til þrautar í hægum sessi.

Enginn man, hverjir hafa verið fjármálaráðherrar Nýja-Sjálands. Aðeins eitt nafn lifir í sögunni. Það er nafn Douglas, sem lagði grundvöll að viðreisn hagkerfis landsins. Um allan heim er vitnað til hans og róttækra aðgerða hans. Nafn hans er orðið að táknmynd.

Þegar róttækra aðgerða er þörf, kalla þjóðir stundum á slíka stjórnmálamenn, sem hafa sterka sjálfsmynd og telja sig ekki þurfa sífellt að spegla sig í skoðanakönnunum. Þeir framkvæma það, sem þeir telja nauðsynlegt, og standa síðan eða falla í næstu kosningum.

Saga nútímans man eftir þessum, en hefur gleymt hinum. Hún man eftir Winston Churchill og Margaret Thatcher, sem fóru í framkvæmd eftir skoðunum sínum og létu ekki skoðanakannanir taka sig á taugum. Hún mun hins vegar gleyma starfsbróðurnum John Mayor.

Þjóðir í austanverðri Mið-Evrópu hafa sumar kallað á öndvegismenn, þegar þær þurftu í einu vetfangi að flytja sig úr hagkerfi Varsjárbandalagsins yfir í markaðsbúskap Vestur-Evrópu. Þannig vegnaði Tékkum, Pólverjum og Eistlendingum betur en mörgum öðrum.

Í löndum þeirra var skorið á hnúta og grundvöllur lagður að bjartri framtíð. Margir hinna ótrauðu stjórnmálamanna urðu ekki langlífir í embætti, en þeim mun varanlegri á spjöldum sögunnar. Þeir mældu þar árangur sinn, en ekki í skoðanakönnunum líðandi stundar.

Himinn og haf er milli þeirra stjórnmálamanna, sem mæla árangur sinn á spjöldum sögunnar, og hinna, sem mæla árangur sinn af langlífi í hægum sessi. Því miður hefur hinum fyrrnefndu farið fækkandi í stjórnmálum Vesturlanda á lygnu stjórnmálaskeiði nútímans.

Í framtíðinni mun tveggja íslenzkra stjórnmálamanna síðustu áratuga verða minnzt betur en flestra annarra slíkra frá sama tíma. Það eru prófessorarnir Gylfi Þ. Gíslason og Ólafur Björnsson, sem voru hugmyndafræðingar Viðreisnar, upphafsatburðar íslenzks nútíma.

Gylfi og Ólafur knúðu Viðreisn í gegn, af því að þeir voru sannfærðir um, að hún yrði þjóðinni til mikils gagns. Þeir vildu fremur skilja eftir sig spor í efnahagssögu þjóðarinnar en að verða augnakarlar skoðanakannana. Mjög fáir slíkir menn hafa komið fram síðan.

Síðustu árin hafa einkum valizt til pólitískra áhrifa hér á landi þeir menn, sem brennandi áhuga hafa á því einu að komast í ráðherrastól og sitja þar sem lengst. Í núverandi ríkisstjórn eru eingöngu slíkir menn, sem væntanlega verða allir gleymdir eftir hálfa öld.

Þetta eru síður en svo verri menn en hinir, sem telja sig fremur vera í stjórnmálum til að hafa snögg og langlíf áhrif heldur en að sitja um langan tíma að áhrifalausum völdum. Þeir koma bara ekki á þeim breytingum, sem þarf til að koma þjóðinni milli þrepa í sögunni.

Þjóðarhagur kallar á róttækar breytingar á ýmsum sviðum, einkum í hinum hefðbundnu atvinnuvegum, fjölþjóðasamstarfi og í miðstýringu af hálfu ríkisins. Kvótakerfi í landbúnaði og fiskveiðum riða til dæmis til falls og hin dauða hönd miðstjórnarinnar flækist víðar fyrir.

Við þurfum fólk, sem vill bylta þessu, skilja eftir spor og hljóta varanlegan orðstír. Við þurfum fólk, sem segir “þá það”, ef því er spáð falli í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV