Erlendar lausaskuldir bankanna og vanskil þeirra eða svokallaður yfirdráttur í Seðlabankanum hafa tvöfaldazt á aðeins þremur mánuðum og eru nú komin upp í 2,3-2,6 milljarða króna. Þeim, sem er orðnir ónæmir fyrir tölum, skal bent á, að þetta er rosaleg fjárhæð.
Bankastjórar landsins virðast upp til hópa ekki hafa stjórn á lánamarkaðinum. Þeir eru umsetnir fjárhungri atvinnuveganna og freistast til að veita miklu meiri lán en þeir geta í rauninni, jafnvel þótt slíkt kosti þungbæra refsivexti í Seðlabankanum.
Þetta jafnvægisleysi er ekki ný bóla, en hún er nú stærri en nokkru sinni fyrr. Til að komast framhjá aðhaldi Seðlabankans hafa stærstu bankarnir, með Landsbankann og Útvegsbankann í fararbroddi, tekið upp á að safna lausaskuldum í útlöndum til að seðja fjárhungrið.
Nú er verið að reyna að stífla þessa undankomuleið, enda geta bankarnir sett þjóðfélagið endanlega á höfuðið með gegndarlausri skuldasöfnun erlendis. Alkunnugt er, að ríkið hefur gert meira en nóg af slíku á undanförnum árum, þótt bankarnir bætist ekki við.
Mjög lítill hluti af undanlátsemi baukanna við þá, sem hrópa á lánsfé, fer í að bjarga illa stæðum einstaklingum, svo sem húsbyggjendum eða námsmönnum, eða fyrirtækjum, sem neitað er að viðurkenna, að komin séu á hausinn. Til dæmis eru aðeins 11% af útlánum Landsbankans til einstaklinga.
Hinn mikli þrýstingur, sem bankarnir fá ekki staðizt, kemur fyrst og fremst frá starfsemi, sem þarf að færa út kvíarnar og talin er geta staðið undir hinum háu og hækkandi vöxtum síðustu missera. Þannig er fjármagnsskortur stærri vandi en vaxtahæðin.
Við lesum daglega fréttir af þenslunni í þjóðfélaginu. Víða á Vestfjörðum vantar útlendinga í fiskvinnslu, þrátt fyrir kvótakerfið. Í auglýsingadálkum dagblaðanna er hrópað á fólk til vinnu. Á bak við þetta hlýtur að vera mikið af arðbærum verkefnum.
Á þessu ári eykst enn meðalstærð íbúða, sem lokið er og eru í byggingu. Og sóknin í lóðir er slík, að Reykjavík getur ekki annað eftirspurn, þótt úthlutað hafi þar verið 81 lóð meira en áætlað hafði verið. Margir umsækjenda hljóta að geta staðið undir fjármagnskostnaði.
Vöruinnflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun hefur líka farið úr böndum. Í slíkt hafa verið notaðir peningar, sem ekki hefur verið unnt að seiða inn á lánamarkaðinn, þrátt fyrir hækkaða vexti. Og nú vilja sumir fá að kaupa gull í stað þess að nota sér vextina.
Samt eru til skottulæknar og að minnsta kosti heill stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, sem hvað eftir annað fárast út af of háum vöxtum, rétt eins og kaþólska kirkjan gerði hér af trúarástæðum á þjóðveldisöld, þegar raunvextir voru 10% og þóttu sjálfsagðir.
Háir og hækkandi vextir hljóta að vera virkasta leiðin til að draga úr hinni óheyrilegu umframeftirspurn eftir fjármagni og vinza brott hin síður arðbæru verkefni. Þeir eru mun betri en geðþóttaskömmtun af hálfu stjórnmálamanna í öllum framsóknarflokkunum.
Hinn rosalegi vöxtur lausaskulda bankanna er nýjasta og alvarlegasta aðvörunin um, að það bullsýður á kerfinu og að spennan undir niðri mun leita útrásar í verðbólgusprengingu, ef stjórnvöld ríkis og fjármagns megna ekki að snarminnka hungrið í lánsfé og seiða fram snaraukið sparifé.
Jónas Kristjánsson
DV