ERFITT VERÐUR að semja um svonefndar varnir landsins. Stjórn Bandaríkjanna hefur lagt til, að Ísland borgi ekki bara rekstur flugvallarins, heldur einnig rekstur svonefnds varnarliðs. Eins og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.
ÞETTA ER ANNAÐ viðhorf en það, sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa haldið fram, að hafi verið í viðræðum þeirra við George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þeir gefa í skyn, að undirmenn Bush séu að tefla skákina að honum forspurðum.
MISVÍSANDI viðhorf aðila í Bandaríkjastjórn fara raunar eftir þekktum aðferðum í stofnunum, þar sem forstjórinn telur sig neyddan til að vera kurteisan út á við og aðstoðarmenn hans sjá svo um hörkuna í samningaviðræðum.
BANDARÍKIN telja sig ekki lengur hafa gagn af samningi um varnir á Íslandi. Áhyggjuefni þeirra eru ekki lengur handan Norðurpólsins, í Sovétríkjunum, heldur í þriðja heiminum, einkum í löndum múslima. Þetta eru nýir straumar að vestan.
VIÐ VERÐUM óhjákvæmilega að taka við rekstri flugvallarins og verðum jafnframt að ákveða, hvort okkur þyki svo vænt um sjálft varnarliðið, að við viljum borga fyrir það. Raunar vilja flestir losna við það, en það er önnur og gömul saga.
NÆSTA SKREF er, að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra klæðir gamalt áhugamál í ný föt. Hann kynnir heimavarnir, sem felast í landhelgisgæzlu, friðargæzlusveitum og svartstökkum lögreglunnar. Hann fer aftur að tala um íslenzkan her.
VIÐ GETUM dregið málið á langinn, ef við viljum og meðan Stephen Hadley hættir ekki bara að borga til að setja á okkur þrýsting.
DV