Það er vitlaust gefið

Greinar

Íslendingar eru aftur komnir í efsta sæti þjóða heims í töpuðum vinnudögum vegna verkfalla, eftir að hafa verið í þriðja sæti á eftir Ítölum og Finnum í nokkur ár. Stöðugt gengi á ýmsum öðrum sviðum efnahagslífsins hefur ekki framkallað aukið jafnvægi á þessu sviði.

Skýringin er ekki flókin. Við búum við meira misræmi en aðrar vestrænar þjóðir milli þjóðartekna annars vegar og launa hins vegar. Þótt við séum sem þjóð meðal allra tekjuhæstu í heimi, verðum við að sæta mun lakari launum en starfsbræður okkar í mörgum löndum.

Launagreiðendur hafa ekki svigrúm til að hækka laun starfsfólks til samræmis við það, sem tíðkast í löndum á svipuðu stigi þjóðartekna. Afkoma fyrirtækja á Íslandi er lakari en gengur og gerist í slíkum löndum. Samanburðardæmið við útlönd gengur einfaldlega ekki upp.

Mikil spenna myndast á markaði kjarasamninga, þegar starfsfólk reynir að ná þeim tekjum, sem það telur sig eiga að fá, hjá fyrirtækjum og stofnunum, sem geta tæpast greitt lágu launin. Þetta leiðir til þess, að átök á vinnumarkaði eru meiri hér á landi en annars staðar.

Sex vikna verkfall kennara á þessu ári er stórkarlalegt sýnishorn af dæmi, sem gengur ekki upp. Að undanförnu hafa sjómenn verið í verkfalli, sem kostaði efnahagslífið hundruð milljóna á dag. Og nú eru rútubílstjórar komnir úr verkfall, sem var að verða illskeytt.

Reynslan af verkföllum er misjöfn og einkum léleg. Herkostnaður starfsmanna af verkföllum er mikill. Kennarar verða til dæmis mörg ár að vinna upp tapið af verkfallinu í vetur. Samt rembist fólk alltaf við þessa aðferð við að reyna að kreista fé úr launagreiðendum.

Íslendingum er fyrirmunað að skilja, að það er vitlaust gefið í þessu spili. Þjóðartekjurnar koma ekki nógu vel til skiptanna, af því að hluta þeirra er sóað á öðrum vettvangi, utan skipta. Þetta er búið að segja fólki áratugum saman, en það fæst ekki til að skilja samhengið.

Þegar 250 þúsund manna smáþjóð brennir 20 milljörðum króna árlega á altari landbúnaðar, með innflutningshöftum, niðurgreiðslum, uppbótum og styrkjum, er það fé ekki til ráðstöfunar í annað. Það gufar bara upp. Þetta eru 320.000 krónur á ári á fjögurra manna fjölskyldu.

Stefna innflutningshafta, niðurgreiðslna, uppbóta og styrkja í landbúnaði er studd meirihluta kjósenda og öllum þorra þingmanna. Þjóðin tekur hins vegar ekki afleiðingum þessara skoðana sinna. Hún vill bæði halda og sleppa. Og hún fer í verkföll því til staðfestingar.

Misræmið milli þjóðartekna og launatekna er ekki efnhagslegt vandamál, heldur pólitískt vandamál. Það er ekki á valdi launagreiðenda að brúa þetta augljósa bil. Verkfallsmenn eru yfirleitt í geitarhúsi að leita ullar, svo sem dýrkeypt dæmin sanna hvert á fætur öðru.

Nær væri fyrir launagreiðendur og launafólk að taka saman höndum um að stöðva verðmætabrennsluna, sem kemur í veg fyrir, að fjármagn komist til skiptanna í atvinnulífinu. Það verk er aðeins hægt að vinna á pólitískum vettvangi. Þar er lykillinn að launahækkunum.

Meðan meirihluti þjóðarinnar og allur þorri þingmanna hennar eru þeirrar skoðunar, að ekki megi hrófla við pólitískri verðmætabrennslu, verður þjóðin að reyna eftir fremsta megni að sætta sig við, að miklar þjóðartekjur endurspeglist ekki að fullu í launatekjum hennar.

Þjóðin hefur tekið pólitíska ákvörðun og neyðist síðan til að taka fjárhagslegum afleiðingum hennar. Þetta er bara gamla formúlan: Hver er sinnar gæfu smiður.

Jónas Kristjánsson

DV