Það gerist ekki hér

Greinar

Fáir hefðu trúað fullyrðingum fyrir þremur mánuðum um, að landsfaðir Þýzkalands í sextán ár, 1982­1998, persónugervingur trausts manna á þýzka markinu og þýzku efnahagslífi, sjálfur Helmut Kohl, væri sekur um athæfi, sem getur kostað hann fimm ára fangelsi.

Nú er svo komið, að annan hvern dag birtast nýjar upplýsingar um stórfellt fjármálamisferli Kohls og helztu samstarfsmanna hans á sextán ára valdatíma. Þær snúast um mútur og þakkargreiðslur vopnasala og stóriðjumanna til frammámanna kristilegra demókrata.

Wolfgang Hüllen, formaður fjármálanefndar þingflokksins, hefur framið sjálfsvíg. Manfred Kanther, fyrrum innanríkisráðherra, hefur sagt af sér þingmennsku. Wolfgang Schäuble, arftaki Kohls sem formaður flokksins, hefur beðizt afsökunar í þýzka þinginu.

Þingið hóf í fyrradag umfangsmikla rannsókn á peningaþvotti, leynisjóðum og mútugreiðslum á vegum kristilegra demókrata. Búizt er við, að rannsóknin taki allt að tveimur árum. Áður var hafin venjuleg lögreglurannsókn á trúnaðarbresti Helmuts Kohl.

Lítill vafi er á, að sextán ára ríkisstjórn Helmuts Kohl var til sölu. Vopnasalar á borð við Karlheinz Schreiber og stóriðjuhringir á borð við Elf-Aquitaine gátu keypt þjónustu hennar með peningum, sem notaðir voru til að halda úti starfi flokks kristilegra demókrata.

Talin er hætta á, að fyrir flokki kristilegra demókrata í Þýzkalandi fari eins og samnefndum flokki á Ítalíu, sem leystist upp í frumeindir og hvarf, þegar saksóknarar ríkisins fóru að beina spjótum sínum að spillingu hans og samböndum við hættulegustu glæpaöfl landsins.

Mál Helmuts Kohl hefur verið að vinda upp á sig í tvo mánuði. Það hefur orðið landi og þjóð að tímabundnum álitshnekki, en mun til lengdar sýna fram á, að stjórnkerfi landsins malar örugglega, þótt það mali hægt. Þjóðverjar hafa burði til að moka sinn pólitíska flór.

Svipaðar hundahreinsanir hafa átt sér stað víða um Vestur-Evrópu. Öllum er kunnur uppskurðurinn á ítölskum stjórnmálum og fall valdamikilla stjórnmálamanna á Spáni og í Belgíu, þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hrundi.

Mikilsverðasta dæmið um opnun leyndardóma evrópskra stjórnmála var afsögn allra ráðherra Evrópusambandsins á síðasta ári vegna misferlis með peninga, annarra afglapa og aðgæzluleysis í starfi. Vestrænt lýðræði sigrast smám saman á misnotkun pólitísks valds.

Allar hljóta þetta að vera undarlegar fréttir norður í bananalýðveldinu Íslandi, þar sem ekki eru einu sinni lög á borð við þau, sem Helmut Kohl braut og stökktu Bettino Craxi úr landi. Hér segja menn bara eins og Kohl “treystið mér” og komast léttilega upp með það.

Óhætt mun vera að fullyrða, að atburðir á borð við þá, sem hafa verið að gerast í Þýzkalandi, munu ekki gerast á Íslandi í náinni framtíð, ekki af því að íslenzkir stjórnmálamenn taki Helmut Kohl fram að siðgæði, heldur af því að lýðræðislegt aðhald virkar ekki hér á landi.

Hér komast fjármálastjórar stórfyrirtækja upp með yfirlýsingar um lítinn og engan stuðning þeirra við stjórnmálaflokka án þess að nokkur tilraun sé gerð til að prófa innra sannleiksgildi þeirra eða hvort verið sé að snúa út úr sannleikanum með orðalagi um formsatriði.

Hér á landi er ekki til neitt opinbert ferli til að rannsaka, hvort innlend og erlend stórfyrirtæki geti keypt sér pólitíska hlýju, einkaleyfi og sértækar fyrirgreiðslur.

Jónas Kristjánsson

DV