Það góða sem ég vil

Greinar

Ríkisstjórnin ákveður stundum eins og títt er um slíkar að láta eitthvað gott af sér leiða. Hún kallar saman tugi sérfróðra manna og lætur semja fagrar stefnuskrár á ýmsum sviðum. Þegar búið er að litprenta bæklingana, eru þeir hátíðlega kynntir í Rúgbrauðsgerðinni.

Þannig var í fyrrasumar smíðuð stefna ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans. Og í vetur var ákveðið að hætta notkun fíkniefna á Íslandi upp úr aldamótum. Hvort tveggja er afar fagurt og göfugt og ráðherrar verða andaktugir í Rúgbrauðsgerðinni.

Það fylgir hins vegar ekki, að neitt skuli vera gert í málunum. Í hvorugu málinu hefur neitt verið gert, sem bendir til, að framkvæma eigi góðan vilja stefnuyfirlýsinganna. “Það góða, sem ég vil, geri ég ekki” er niðurstaðan af raunverulegri afrekaskrá ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki nýtt, að lítið samband sé milli orða og efnda. Það er heldur ekki nýtt, að sérfróðir menn séu leiddir saman og látnir semja gögn, sem síðan rykfalla í skúffum stjórnvalda. Það, sem er nýtt, er algert sambandsleysi ímyndunar og raunveruleika.

Svo virðist sem íslenzkir ráðherrar séu í vaxandi mæli farnir að geta talið sjálfum sér og sjálfum sér einum trú um, að hlutirnir hafi gerzt, þegar framleiddur hefur verið um þá litprentaður bæklingur, sem afhentur hefur verið við hátíðlega athöfn í Rúgbrauðsgerðinni.

Ef ríkisstjórnin væri persóna, mundi hún kalla á sálfræðing til aðstoðar. En af því, að svo er ekki, þá yppta menn bara öxlum og snúa sér að því að skipa nýjar nefndir til að semja nýja bæklinga um hver þau mál, sem komast í tízku hverju sinni. Þetta er kallað pólitík.

Samt er ríkisstjórnin ekki að blekkja neina nema sjálfa sig. Þeir aðilar, sem standa að framleiðslu stefnuyfirlýsinga, vita vel, að efndirnar eru alls engar. Og almenningur er orðinn svo sjóaður í umgengni við stjórnmál, að hann trúir mátulega á ljúfar stefnur og fögur orð.

Ekkert hefur verið gert til að koma á pappírslausum samskiptum ríkisstofnana við viðskiptaaðila sína. Ekkert hefur verið gert til að auka bandvídd fjárgatna þeirra, sem kallaðar eru upplýsingahraðbrautin. Ekkert hefur verið gert til að tryggja sambandið við umheiminn.

Þótt farið sé með stækkunargleri yfir hverja einustu línu í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans, er ekki hægt að finna einn einasta stað, þar sem framkvæmd endurbóta sé hafin. Frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar er málið úr sögunni.

Svipað er að segja um stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefnavörnum. Raunveruleikinn stefnir í þveröfuga átt. Tollgæzla á því sviði hefur verið minnkuð, síðan stefnan var gefin út. Framlög ríkissjóðs til endurhæfingar fíkniefnasjúklinga hafa minnkað. Allt flýtur í eiturlyfjum.

Harkan er að aukast í undirheimum landsins og þeir eru að færa út áhrifasvæði sitt. Tilgangslaust og mergjað ofbeldi fer sífellt vaxandi. Ríkisstjórnin kveikir ekki einu sinni á perunni, þegar sýslumaðurinn í Reykjavík er laminn. Hún lifir enn í öðrum heimi ímyndunaraflsins.

Út af fyrir sig er það sjónarmið, að ríkisstjórnir eigi ekki endilega að starfa, heldur bara vera til, enda kosti það minnsta peninga. En því sjónarmiði fylgir líka, að þær eigi ekki heldur að gefa út stefnuskrár, því að þær kosta litprentun og kynningu í Rúgbrauðsgerðinni.

Fólk er farið að hrökkva við, er það heyrir um góðan ríkisstjórnarvilja. Það er farið að reikna með, að það góða, sem hún vilji, geri hún einmitt alls ekki.

Jónas Kristjánsson

DV