Það góða sem ég vil geri ég ekki

Greinar

Frá upphafi núverandi útgerðar Helgarpóstsins hefur ritstjórinn einmitt gert það, sem hann sýknt og heilagt varaði aðra við. Hann hefur búið við 40% eignaraðild áhrifamikils aðila úti í bæ, útgáfufélags Alþýðubandalagsins, þess sem rekur Vikublaðið fyrir flokksstyrkinn.

Í ofanálag héldu málsaðilar eignarhaldinu leyndu fyrir lesendum Helgarpóstsins og félögum Alþýðubandalagsins og svo auðvitað þjóðinni allri um leið. Þingmenn Alþýðubandalagsins hafa komið af fjöllum og hafa misjafnar skoðanir á þessari ráðstöfun verðmæta.

Athyglisverðast í þessu samhengi er, að það hefur verið ein helzta fjölmiðlunarkenning Helgarpóstsins, að eignarhald hafi mikil áhrif á innihald fjölmiðla, jafnvel þótt það sé aðeins einn tíundi hluti þess, sem útgáfufélag Alþýðubandalagsins átti í Helgarpóstinum sjálfum.

Það góða, sem ég vil, geri ég ekki, sagði nafngreindur postuli fyrir tveimur árþúsundum. Það er því hefð fyrir, að misræmi sé milli góðs vilja og góðra verka. Hins vegar lagði fyrri postulinn ekki í vana sinn að væna einmitt aðra um það athæfi, sem hann stundaði ákafast sjálfur.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því, að þeir væru svo góðir í sér, að þeir létu eigendur ekki hafa áhrif á sig. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því að segjast ætla að reyna að bæta ráð sitt á allra næstu mánuðum. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Nú eru uppi ráðagerðir um, að ritstjóri og starfsfólk blaðsins kaupi hlut útgáfufélags Alþýðubandalagsins og að stjórnarmenn í því útgáfufélagi taki skellinn persónulega, ef það endurheimtir ekki þriggja milljóna króna hlutafé sitt. Batnandi postulum er bezt að lifa.

Það breytir hins vegar því ekki, að málinu var mánuðum saman haldið leyndu fyrir öllum þeim, sem hefðu viljað vita um eignarhald blaðsins, þegar þeir lásu innihald þess. Það breytir ekki því, að nýju loforðin fögru stafa af, að glöggir menn komu upp um strákinn Tuma.

Sú síðbúna skýring heldur ekki vatni, að peninga, sem átt hafi að fara í samstarf Vikublaðsins og Helgarpóstsins um ýmsa framleiðsluþætti, hafi dagað uppi sem hlutafé hjá Helgarpóstinum og legið þar í átta mánuði, af því að Vikublaðið hafi misst áhuga á samstarfinu.

Það er ekki augljós aðferðafræði við samstarf um framleiðsluþætti að leggja fram 40% af hlutafé samstarfsaðilans, missa síðan áhuga á samstarfinu og láta loks hlutaféð liggja eins og ekkert hafi í skorizt. Sú vörn annarra hefði ekki staðizt gagnrýni Helgarpóstsins.

Ljóst er, að hugmyndafræði blaðsins mun breytast að samsetningu í kjölfar uppljóstrunarinnar. Framvegis verður minna um samsæriskenningar þess, þar sem dularfullar og glæpsamlegar hneigðir og fyrirætlanir eru taldar standa að baki smávægilegum eignarhlutum.

Málið skaðar um leið aðra fjölmiðla. Það spillir fyrir öllum hinum, þegar þeir taka málsmetandi menn á beinið og prédika yfir þeim góða siði. Á næstunni verður slíku svarað með því að segja, að postularnir og prédikararnir séu ekki barnanna beztir, svo sem dæmin sanni.

Taka mun langan tíma að fá menn til að viðurkenna, að leyndarmál Helgarpóstsins sé einstakt leyndarmál, sem segi alls ekkert um aðra fjölmiðlun í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV