Það gustar af Þresti.

Greinar

Frá landbúnaðinum hefur smitazt sú sjúklega hugsun, að réttlætisstefna geti verið hornsteinn í atvinnulífinu. Þess vegna tala stjórnmálamenn um, að hinir og þessir staðir eigi skilið að fá hinar og þessar verksmiðjur eða skuttogara.

Ríkið hefur löngum rekið hinn hefðbundna landbúnað mjólkur- og kjötframleiðslu á þeirri forsendu að bændur ættu skilið að selja allar afurðir sínar og á tilgreindu verði, sem veiti þeim réttlát kjör í samanburði við aðra.

Þetta hefur gert landbúnaðinn þjóðinni dýrari en vígbúnaðarkapphlaupið er stórveldunum. Ár eftir ár hefur meira en tíundi hluti ríkisteknanna farið í þessa vitleysu, svo og meiri fjárfestingarpeningar en runnið hafa til alls iðnaðar.

Alvöru atvinnuvegir verða hins vegar aðeins reknir á forsendum hagkvæmni, framleiðni og samkeppni. Enn einn hagfræðingurinn, sem bendir á þetta, er Alþýðubandalagsmaðurinn Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Í nýlegri blaðagrein um sjávarútveg lýsir hann áhyggjum vegna smitunar byggðastefnu og réttlætishyggju til undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar, er leiði meðal annars til of stórs fiskveiðiflota, sem rekinn er á of óhagkvæman hátt.

Þröstur segir: “Félagshyggju og réttlæti má aldrei rugla saman við hagkvæmustu framleiðsluaðferðir og árangursríkastar leiðir, meðan enn er hrópað á óbreytt eða bætt lífskjör”. Ennfremur segir Þröstur í greininni:

“Viljum við ná sem mestri hagkvæmni út úr efnahagslegum athöfnum manna, auka hagvöxtinn, þá verðum við að leyfa samkeppninni að njóta sín betur en nú, eða réttara sagt láta hana skipta um athafnasvið.”

Enn segir Þröstur í hinni miskunnarlausu tímamótagrein Alþýðubandalagsins: “Ef við ætlum að verja lífskjörin hér á landi, verðum við að snúa blaðinu algjörlega við. Beita hagkvæmninni í sjávarútveginum, en réttlætinu annars staðar.”

Aftur og aftur hnykkir Þröstur á sömu meginatriðunum: “Aðhald samkeppninnar hefur nú reynzt hvað drýgzt, þegar til lengdar lætur.” Með samkeppni vill hann fá “innbyggða hvata” í sjávarútveg og raunar atvinnulífið almennt.

Annað mikilvægasta atriðið til úrbóta í sjávarútvegi, sem Þröstur mælir með, er, að frjáls verðlagning verði tekin upp á fiski milli útgerðar og fiskvinnslu, í stað ákvörðunar að ofan í verðlagsráði að undirtagi stjórnvalda.

Þarna slær Alþýðubandalagsmaðurinn við flestum, ef ekki öllum hagfræðingum hægri stefnu og leiftursókna. Engin leið er að rifja upp, að þessi skynsamlega og rökfasta stefna hafi verið í sviðsljósi annarra, sem lagt hafa orð í belg.

Þröstur telur ekki aðeins, að markaðsstefna á þessu sviði muni, samfara öðrum aðgerðum, leiða til nauðsynlegrar fækkunar fiskiskipa og til eftirsóknarverðrar hagkvæmni og framleiðni útgerðar Hún höggvi líka að rótum skipulagsbölsins:

“Gæði íslenzka fisksins hafa farið dvínandi. Mikið af þeim fiski, sem berst að landi, er rusl, sem ekki á að greiða nema lítið fyrir. Nú er greitt fullt verð fyrir þetta rusl.” Sem stafar auðvitað af, að verðlagsráð ákveður.

Í annars oft flatneskjulegri umræðu um blessuð efnahags- og atvinnumálin er hressandi gustur af grein Þrastar Ólafssonar hagfræðings. Hann talar enga tæpitungu og bendir á trúverðugar úrbætur, sem aðrir hafa lítt eða ekki hampað.

Jónas Kristjánsson.

DV