Það kostar klof að ríða röftum

Greinar

Nokkur atriði benda til, að Bandaríkin valdi ekki forustuhlutverki sínu sem eina heimsveldið eftir fall Sovétríkjanna. Í vaxandi mæli eru Bandaríkjamenn farnir að draga sig inn í skel og láta öðrum og einbeittari aðilum eftir leikvelli og vígvelli veraldarsögunnar.

Þar með eru Bandaríkin að hverfa aftur til fyrri sjónarmiða. Þau voru einangrunarsinnuð, áður en þau voru dregin út í aðild að tveimur heimsstyrjöldum á þessari öld. Áður töldu menn að þetta nýja himnaríki á jörð ætti ekki að sinna erjum gamla heimsins.

Bandarískir fjölmiðlar endurspegla áhugaleysi almennings á erlendum málum og bandarískir þingmenn telja sér vænlegt til framdráttar í kosningum að reka einangrunarstefnu. Með sífelldum hótunum hafa þeir kjarklítinn forseta meira eða minna í gíslingu.

Nú er svo komið, að Bandaríkin neita beint eða óbeint að taka þátt í margvíslegu samstarfi ríkja, með tilvísun til þess, að slíkt fáist ekki samþykkt í þinginu. Eða þá að stjórnarerindrekar reyna að hafa sitt fram á alþjóðavettvangi með því að nota þingið sem Grýlu.

Bandaríkin menga andrúmsloftið tvöfalt meira á hvern íbúa landsins en Evrópumenn gera. Samt vildu sendimenn Bandaríkjanna á mengunarfundinum í Kyoto ekki ganga eins langt og Evrópumenn í aðgerðum gegn mengun og fengu dregið úr markmiðunum.

Það fylgir sögunni, að niðurstaða fundarins í Kyoto verði ekki lögð fyrir bandaríska þingið, því að þar verði hún felld. Þess í stað ætlar forsetinn að setja málið í salt og bíða betri tíma með blóm í haga. Þetta er skólabókardæmi um kjarkleysi framkvæmdavalds.

Bandaríkin greiða ekki skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar, en vilja samt nota samtökin sér til framdráttar gegn einkaóvinum sínum á borð við Persa. Aftur er vísað til bandaríska þingsins, sem gerir þó ekki annað en að meta, hvað sé hægt að bjóða kjósendum.

Bandaríkjastjórn neitar að taka meira en málamyndaþátt í kostnaði við stækkun Atlantshafsbandalagsins og vísar til þess, að bandaríska þingið muni ekki telja slíkt vera boðlegt kjósendum. Evrópuríkin verði að fara að sjá meira um sig sjálf, sem vel má satt vera.

Ef bandarískir kjósendur láta ekki bjóða sér að taka til jafns við aðra þátt í kostnaði við rekstur Sameinuðu þjóðanna, við minnkun á mengun andrúmsloftsins og við stækkun Atlantshafsbandalagsins, er forustuhlutverk Bandaríkjanna á fjölþjóðavettvangi að molna.

Bandaríkin eru um það bil að koma sér út úr húsi hjá samanlögðum ríkjum Íslams. Ráðstefna á vegum Bandaríkjanna um efnahagsmál Miðausturlanda var hunzuð af fyrrverandi bandamönnum þeirra úr Persaflóastríðinu, svo sem Egyptalandi og Marokkó.

Þetta stafar af innanríkismálum vestra. Þeirra vegna draga Bandaríkin taum Ísraels gegn Palestínu. Öflugur þrýstihópur í Bandaríkjunum ræður stefnunni, þótt það geri þeim ókleift að hafa hemil á stjórn Ísraels og skaði þannig heimsveldishagsmuni Bandaríkjanna.

Í hernaði hafa Bandaríkin átt erfitt síðustu áratugina. Þau flúðu af hólmi í Víetnam, Líbanon og Sómalíu. Og yfirburðir þeirra í hernaðartækni munu mega sín minna, þegar kjarna- og efnavopn dreifast svo mjög um heiminn, að þau komast í hendur skæruliða.

Þegar hverfulir kjósendur þola ekki að sjá hermenn sína falla á skjánum, er ríkisvald þeirra að molna sem heimsveldi. Það kostar nefnilega klof að ríða röftum.

Jónas Kristjánsson

DV