Það reddast

Greinar

Sérstakt embætti reddara hefur verið algengt í fiskvinnslu, verktöku og raunar öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Í sinni hreinustu mynd felur þetta hlutverk ekki í sér neitt fast starf, heldur átök við vandamál, sem upp kunna að koma og leysa þarf í grænum hvelli.

Reddarinn útvegar viðgerðarmenn og varahluti. Hann slefar bankapappírum fyrir horn til næsta gjalddaga. Hann tekur að sér að setja á fót nýjar deildir eða nýjar framleiðslulínur. Hann er hvarvetna í fremstu víglínu, ef eitthvað óvænt ber að garði fyrirtækisins.

Þegar fyrirtæki eru rekin á grundvelli rekstrar- og stjórnunarfræða, þarf ekki sérstakan reddara. Þar er málum hagað á þann hátt, að verkefni eru leyst í hversdagslegri vinnu, áður en þau verða að vandamálum, sem kalla á hæfileikana, sem reddarinn býr yfir.

Þótt fyrirtæki hefðbundinnar stjórnunar gangi betur en reddingarfyrirtækin, þegar vel og venjulega árar, geta komið upp þær aðstæður í þjóðfélaginu, að venjuleg vinnubrögð duga ekki. Þá blómstra reddararnir og bjarga sínum fyrirtækjum með snarræði fyrir horn.

Íslendingum hefur raunar gengið svo vel á þessu sviði, að reddarar hafa orðið útflutningsvara, þegar slíkra hæfileika hefur reynzt þörf úti í heimi og menn þar hafa vitað um tilvist þeirra á Íslandi. Mörgum Íslendingum hefur vegnað vel sem reddurum úti í heimi.

Íslenzk stjórnvöld hafa löngum séð um að halda reddurum í þjálfun. Alþingi og ríkisstjórn hafa sífellt verið að setja lög og reglugerðir og stofna sjóði og stofnanir, sem breyta rekstrarumhverfi í tíma og ótíma, svo að reddarar verða stöðugt að halda árvekni sinni.

Rætur reddarans liggja í aldagömlum þrengingum þjóðarinnar, svo og fjölbreyttum störfum til lands og sjávar. Þjóðin hraktist á barmi vonarvalar og átti sér ævinlega undankomuleið í reddingum. Menn lágu í leti, þegar ekki gaf, en gengu berserksgang til verka.

Þessu fylgdi mikil samhjálp fólks, sem einkenndi hreppaskipan landsins fram á þessa öld. Íslendingar hafa vanizt að rétta náunganum hjálparhönd, hreinlega af því að annars hefði land ekki haldizt í byggð á tímum hafíss og eldgosa. Hinn íslenzki reddari er hjálpsamur.

Ekki er furða, þótt Íslendingum hafi tekizt að byggja upp fjölbreytt mynztur hjálpar- og björgunarsveita af ýmsu tagi. Þar sameinast þörfin fyrir hjálpsemi og skyndilegar reddingar. Þannig höfum við gert hlutverk reddarans að frístundaiðju til viðbótar við atvinnu.

Í kreppunni, sem stjórnvöld hafa ræktað upp úr samdrætti í sjávarafla, blómstra hæfileikar reddarans á nýjan leik. Menn eru fljótir að átta sig og haga seglum eftir vindi. Menn breyta fyrirtækjunum í samræmi við sínýtt rekstrarumhverfi og lifa því af kreppuna.

Menn mæta gjaldþrotum viðskiptavina, samdrætti viðskipta, reglugerðum og öðrum fororðningum hins opinbera, svo og öðrum kárínum umhverfisins með hugarfari reddarans. Með venjulegum rekstrar- og stjórnunaraðferðum væri þetta ekki unnt í ólgusjó.

Fjölskyldur bjarga sér á sama hátt og fyrirtækin. Fólk reddar sér fyrir horn. Það er hjálpsamt við ættingja, sem hafa lent í brotsjóum vegna gjaldþrota eða atvinnumissis. Hið hjálpsama reddaraþjóðfélag blómstrar í vandræðunum, sem kerfið hefur magnað þjóðinni.

Þótt illa gangi, er engin ástæða til að óttast, að Íslendingar feti færeyska slóð til glötunar. Reynslan sýnir, að einn hlutur er öruggur í sögu Íslands: Það reddast.

Jónas Kristjánsson

DV