Það saxast á fullveldið

Greinar

Við höfum látið öðrum í té hluta af fullveldi okkar. Um minnst af valdaafsalinu hefur verið ágreiningur. Helzt hafa hvalveiðisinnar rætt um, að rétt sé, að Íslendingar fari úr Alþjóða hvalveiðiráðinu, ef niðurstöður þess í næstu viku verða ekki eins og þeim þóknast.

Íslendingar hafa hingað til beygt sig nokkuð eftir niðurstöðum Alþjóða hvalveiðiráðsins. Að minnsta kosti hafa hvalveiðar verið stöðvaðar um tíma að tilhlutan ráðsins. Það væri ný vending, ef við hættum þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi, og er ekki líkleg.

Hagsmunahópar úti í bæ hóta stundum að bera mál sín fyrir aðila, sem séu æðri íslenzkum stjórnvöldum. Menn hóta að kæra lög Alþingis, gerðir ríkisstjórnar og úrskurði Hæstaréttar. Menn hafa jafnvel unnið mál gegn íslenzka ríkinu fyrir evrópskum dómstóli.

Á sínum tíma beittum við vagni Alþjóðadómstólsins í Haag til að ná viðurkenningu á sjónarmiðum okkar í erfiðri þrætu við Breta og fleiri ríki um efnahagslögsögu Íslands. Við eigum í stöðugum utanstefnum til erkibiskupa í fjölþjóðadómstólum og fjölþjóðasamtökum.

Við látum Norðurlönd ráða lögum hér á landi. Það gerum við með því að þýða lög, sem þar hafa verið búin til, og snúa þeim upp á Ísland. Og nú á her manns að fara af stað til að þýða reglugerðir Evrópubandalagsins á íslenzku, svo við heyrum betur erkibiskups boðskap.

Um ekkert af þessu hefur verið deilt í alvöru, enda vita menn af raunsæi, að fullveldi smáþjóðar eru takmörk sett. Við lifum ekki einangruð á eyju. Við eigum allt okkar undir góðum viðskiptum við umheiminn. Og við verðum með hverju árinu háðari slíkum viðskiptum.

Það getur beinlínis verið hagkvæmt fyrir slíka þjóð að spara sér vinnu með því að þýða lög og reglugerðir annarra. Það getur líka verið beinlínis hagkvæmt fyrir slíka þjóð að leita skjóls hjá fjölþjóðadómstólum og fjöl þjóðasamtökum gegn hinum sterku aðilum í heiminum.

Það er fleira en viðskipti, sparnaður og nærtækir hagsmunir, sem varpa okkur í fang aðila, sem taka til sín skerf af fullveldi okkar. Til sögunnar eru að koma nýjar ógnir, sem ekki verður barizt gegn, nema með fjölþjóðlegu átaki. Stærsta ógnin er hrörnun jarðar.

Í þessari viku var staðfest á alþjóðlegri ráðstefnu í London, að eyðing ózonlagsins er meiri og hættulegri en áður var gert ráð fyrir. Stjórnmálamenn á ráðstefnunni virtust átta sig á, að þjóðir heims verða að taka höndum betur saman til að stöðva þessa eyðingu.

Ólíklegt er, að standi á Íslendingum að leggja sitt af mörkum. Þegar hefur verið ákveðið að draga hér á landi hraðar úr notkun ózoneyðandi efna, svo sem freons í úðabrúsum og halons í slökkvitækjum, en gert er ráð fyrir í fjölþjóðasamningi, kenndum við Montreal.

Við þurfum einnig að leggja hönd á plóginn til að byggja upp fjölþjóðasamstarf gegn gróðurhúsaáhrifum koltvísýrings. Þótt málið sé enn ekki fullsannað, má þó ljóst vera, að ekki er gott að verða vitur eftir á. Af öryggisástæðum þurfum við að draga úr koltvísýringi.

Eitt ægivaldið að utan, sem við stöndum andspænis, er Evrópubandalag Evrópu. Ef við göngum í það, látum við af hendi nokkuð af fullveldi okkar til viðbótar við fyrra afsal á ótal sviðum. Sumir segja, að það sé eina leiðin til að láta af vitfirringarstjórn í landinu.

Ef íslenzkir þjóðarleiðtogar halda áfram að ofstýra landinu út í óreiðu, endar það með, að þeir og þjóðin neyðast til að fela Evrópubandalaginu að leysa hnútinn.

Jónas Kristjánsson

DV