Það tókst

Greinar

Þegar Gorbatsjov og Reagan ákváðu í viðræðum sín um í dag að halda fjórða fundinn að áliðnum degi, var engum blöðum lengur um að fletta, að stórtíðindi voru í aðsigi. Litli vinnufundurinn var orðinn að einum mikilvægasta toppfundinum í samskiptum heimsveldanna.

Eftir þriðja fundinn sagði Georgy Arbatov, ráðgjafi Gorbatsjovs, að Sovétmenn hefðu lagt fram á fundunum tímamótatillögur um víðtækan niðurskurð kjarnorkuvopna, bæði langdrægra og meðaldrægra. Þar með rofnaði fréttabannið og upplýsingar fóru að leka út.

Því miður varð starfsfólk DV að koma þessari aukaútgáfu út, áður en lauk fjórða fundi Gorbatsjovs og Reagans síðla dags. Nánari upplýsingar um niðurstöður toppfundarins verða því að bíða næsta blaðs, sem kemur út undir hádegi á morgun.

Þegar er ljóst, að leiðtogar heimsveldanna hafa í Höfða smíðað ramma um markvissa sáttavinnu embættismanna beggja aðila til undirbúnings öðrum toppfundi, sem verður í Bandaríkjunum í vetur. Það er Reykjavíkur-ramminn, sem hljóta mun sögulegan sess.

Þar að auki er líklegt, að leiðtogarnir telji sig þegar í dag geta stigið eitthvert eða einhver skref í átt til sátta og sett stafina sína undir samkomulag um það. Helzt er líklegt, að það verði á sviði samdráttar kjarnorkuvopna, bæði langdrægra og meðaldrægra.

Þegar Gorbatsjov og Reagan hittast svo í Bandaríkjunum í vetur, munu þeir formlega staðfesta á viðhafnarhátt þau atriði, sem þeir hafa rammað inn í Reykjavík. Í dag er of snemmt að ræða um, hver þau atriði muni vera, umfram það sem sagt er á blaðamannafundum.

Öllum kunnugum mátti ljóst vera af aðdraganda fundarins, að nokkur árangur væri líklegur. Sumarið einkenndist af stöðugum eftirgjöfum málsaðila á ýmsum áður erfiðum sviðum. Og haustið einkenndist af löngum utanríkisráðherrafundum heimsveldanna í New York.

Þegar toppfundurinn var svo skyndilega tilkynntur, tóku fjölmiðlar heimsins við sér. Enginn trúði, að fundurinn í Reykjavík yrði tómt snakk. Hingað þyrptust um 2500 blaðamenn, þótt fréttabann væri af fundinum og af bandarískri hálfu reynt að gera lítið úr honum.

Strax í gær kom fram vísbending um, að árangurs væri að vænta af toppfundinum, er skipaðar voru tvær nefndir til að undirbúa lokafundina í dag. Önnur fjallaði um samdrátt vígbúnaðar og hin um önnur ágreiningsefni heimsveldanna, þar á meðal mannréttindi.

Í morgun lyftist svo enn brúnin á fólki, þegar kom í ljós, að nefndirnar höfðu setið að störfum í alla nótt. Toppfundurinn í dag hófst svo klukkustund fyrr en ráð hafði verið fyrir gert og stóð þó um hálftíma fram yfir áætluð fundarlok. Þá var ákveðið að halda annan fund.

Í kvöld og næstu daga mun sitthvað fleira síast út um atriðin, sem til umræðu hafa verið á toppfundinum í gær og í dag, svo og um hugsanlega niðurstöðu í sumum þeirra. Endanlega mun þó árangurinn ekki koma í ljós fyrr en að liðnum næsta toppfundi.

En nú þegar er unnt að fullyrða, að Reykjavíkurfundur Gorbatsjovs og Reagans markar upphaf aukins öryggis mannkyns eftir langt tímabil vaxandi öryggisleysis. Nafn Reykjavíkur fær varanlega og einkar jákvæða varðveizlu í stjórnmálasögunni.

Íslendingar geta þar að auki glaðst yfir að hafa átt ríkan þátt í að búa til farsælan ramma utan um toppfundinn, sem skóp heiminum Reykjavíkur-rammann.

Jónas Kristjánsson

DV