Þær skipta samt máli.

Greinar

Baráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sér enn sem komið er lítil merki í dagblöðum stjórnmálaflokkanna. Landsmálin sitja þar enn í fyrirrúmi, enda reka bomburnar hver aðra á síðustu vikum alþingis fyrir sumarleyfi.

Hvernig ættu flokkarnir líka að geta magnað með sér hliðstæðan ágreining og í alþingiskosningum? Sveitarstjórnamál eru að öllum þorra til ópólitísk tæknimál, þar sem skilin milli sjónarmiða flokka hljóta að vera ógreinileg.

Undir yfirborðinu er þó kosningabaráttan komin í fullan gang. Flokksdeildirnar í sveitarfélögunum eru að dusta rykið af titlum innansveitarblaða, sem yfirleitt koma aðeins út í stuttan tíma fyrir kosningar hverju sinni.

Þessi kyndugu kosningablöð eru dæmi um hið mikla starf, sem grunneiningar flokkanna vinna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga. Og þessar virku grunneiningar eru flokksdeildirnar í einstökum sveitarfélögum.

Hið raunverulega flokksstarf fer að mestu leyti fram innan ramma sveitarfélaga, ekki aðeins í sveitarstjórnakosningum, heldur líka í alþingiskosningum. Kjördæmastarfið er aðeins lausleg tenging grasrótarstarfsins í sveitarfélögunum.

Flokkarnir eru nú að setja upp hin furðulega flóknu og viðamiklu kerfi til kosningaundirbúnings, er seint hætta að vekja undrun og jafnvel aðdáun utangarðsmanna, sem á horfa. Spjöldum og pappírum er raðað sitt á hvað.

Ef til vill er dálítill sannleikur í þeirri fullyrðingu, að hinum umfangsmikla kosningaundirbúningi sé fyrst og fremst ætlað að búa til verkefni fyrir flokksfólkið, svo að því finnist það vera sjálft í kosningabaráttu.

Pólitískt mikilvægi sveitarstjórnakosninga felst ekki hvað sízt í samstarfi virkra flokksmanna. Það er mikilvægara en sá málefnaágreiningur, sem menn geta með ærinni fyrirhöfn komið sér upp gagnvart öðrum flokkum á staðnum.

Þetta stuðlar að einingu innan flokka, eins og við sjáum nú bezt af Sjálfstæðisflokknum, sem er hrikalega klofinn í afstöðu til ríkisstjórnar, en gengur í flestum, ef ekki öllum sveitarfélögum sameinaður til kosninga.

Þegar stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar sitja og starfa saman, þótt ekki sé nema til að raða spjöldum og pappírum, er fengin einkar gagnleg aðalæfing fyrir alþingiskosningar, sem verða í síðasta lagi að ári.

Sveitarstjórnakosningar nokkrum mánuðum eða einu ári fyrir alþingiskosningar eru nefnilega fyrst og fremst aðalæfing eða liðskönnun. Þær eru tækifæri til að smyrja ótal ryðgaðar flokksvélar í grasrótarstarfi heima fyrir.

Næstmerkasti þáttur kosninganna er svo túlkun flokkanna á kosningaúrslitunum: mat þeirra á, hvaða vísbendingar úrslitin gefi um möguleika flokkanna í alþingiskosningum. Og á slíku mati geta ríkisstjórnir staðið eða fallið.

Hin eiginlegu málefni sveitarstjórna koma langt að baki í þriðja sæti. Kosningabaráttan núna er einmitt væg á yfirborðinu, af því að flokkarnir eiga í mörgum tilvikum erfitt með að finna sér ágreiningsefni til að rífast um.

Þetta dregur ekki úr mikilvægi sveitarstjórnakosninga. Menn bíða að vísu ekki spenntir eftir, hvort ofan á verði ný hverfi á Korpúlfsstaðatúni eða norðan Rauðavatns.

En flokkarnir fá sína liðskönnun. Og menn bíða eftir sveiflu í fylgi flokkanna og áhrifum hennar á tilveru ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV