Thailand er út úr kú, óvenjulega ljótur kvöldverðarstaður með fremur dýrum mat, en stundum bragðgóðum, á annarri hæð við Smiðjustíg, milli Laugavegs og Hverfisgötu. Þótt aðalréttir kosti 1.600 krónur og þríréttað með kaffi um 3.300 krónur, er ekki mikið lagt í kostnað.
Rýrar munnþurrkur úr pappír duga skammt, þegar lagt er til atlögu við heilsteiktan karfa, sem er flaggskip staðarins, þakinn engifer-sósu og skreyttur djúpsteiktu grænmeti, stundum hóflega eldaður, en oftar ofeldaður og stundum grimmdarlega, svo sem hættir til í austrænni matreiðslu.
Húsakynni eru hrörleg og lítið fyrir þau gert, máluð brún í hólf og gólf. Berar perur hanga í salarlofti og undarlegar fjölskylduljósmyndir í stigagangi. Byrgt er fyrir glugga, með speglum á aðra hlið og fallhlerum á hina, rétt eins og stríðið sé að koma. Þröngt og óþægilega er setið á þreytulegum sessum í bakbröttum bekkjum við glerplötuborð. Lamandi þungi umbúnaðarins yfirgnæfir austræna og elskulega þjónustu.
Margt er gott á Thailandi á góðum degi, einkum bragðsterkar og hressandi sítrónusúpur af ýmsu tagi, til dæmis rækjusúpan Tom-yam-kung. Beztar voru bragðmildar Phat-thai núðlur með rækjum, hrísgrjónum, baunaspírum og jarðhnetum, mildar og góðar. Góður var kjúklingur í sterku karríi, basíl-myntu og kókosmjólk, sem er rjómi tælenzkrar matreiðslu. Einnig meyr kræklingur í chili og basíl-myntu.
Kjúklingabitar á bambusspjótum voru hins vegar þurrir og gervilegir. Djúpsteiktar ferskvatnsrækjur voru hæfilega stinnar, en ofklæddar í hjúpi. Salöt voru einföld og bragðsterk og salatsósur magnaðar. Kryddi virðist grýtt á báða bóga í eldhúsinu, ólíkt því sem ég hef kynnzt í tælenzkri matreiðslu erlendis.
Við prófuðum ekki hálfkæringsnefnda sjávarrétti drukkna sjómannsins, en hroðalega bragðsterkir “dínamítpinnar” þræddu heilan chili-pipar, heilt hvítlaukslauf og eina rækju. Ég set spurningamerki við framboð rétta af slíku tagi.
Jónas Kristjánsson
DV