Þakið yfir höfuðið.

Greinar

Nú er tæpast lengur hægt að byggja yfir sig á kostnað verðbólgunnar. Flest húsnæðislán eru meira eða minna verðbólgutryggð og verða það vafalítið öll, áður en langt um líður. Hér eftir verða menn sjálfir að borga.

Þetta er gífurleg breyting. Raunar er mesta furða, að hún skuli hafa gerzt nokkurn veginn mótmælalaust. Svo miklir hagsmunir eru í húfi, að það gengur kraftaverki næst, að verðbólgugróða sé hægt að útrýma á þessu sviði.

Ekki er allt fengið með því að verðtryggja húsnæðislán. Fleiri breytingar þurfa að fylgja. Það er til dæmis tómt mál að ætla, að fólk geti borgað íbúðakaup á fáum árum. Slík fjárfesting er orðin að ævistarfi.

Verðtryggingin hefur í fyrstu haft það í för með sér, að fólk getur ekki lengur byggt. Hvernig á það að geta reitt fram 200 þúsund krónur á einu ári og 70 þúsund krónur á næstu fimm árum til að eignast tveggja herbergja íbúð?

Þessi aðför að sjálfstæði og sjálfsbjargarvilja ungs fólks er eitt allra alvarlegasta mál þjóðarinnar um þessar mundir. Því miður er mjög lítið um, að stjórnmálamenn sýni í verki vilja til lausnar þess.

Augljóst er, að hér eftir verða húsnæðislán að vera til langs tíma, til dæmis 40 ára. Það kostar gífurlega bindingu fjár, en er eigi að síður óhjákvæmilegt, ef viðhalda á stefnu sjálfseignar í húsnæðismálum.

Lúðvík Gizurarson hæstaréttarlögmaður benti nýlega á það í kjallaragrein í Dagblaðinu, að 300 þúsund króna íbúð mætti greiða niður á 40 árum með eitt þúsund króna mánaðargreiðslum í vexti og afborganir verðtryggðra lána.

Ef slíkt greiðslukerfi væri til hér á landi, gæti fólk eignazt þak yfir höfuðið með tiltölulega fastmótuðum og öruggum hætti. Menn gætu haft mið af tekjum sínum til að ákveða, hvort þeir hafi efni á eitt, tvö eða þrjú þúsund krónum á mánuði.

Nú eru það aðeins fáir útvaldir, sem geta eignazt íbúðir samkvæmt fjármögnun verkamannabústaða. Slíkt fyrirkomulag ætti að vera opið öllum, án tillits til pólitíkur og punktakerfis, en auðvitað með verðtryggðum hætti.

Þetta hefur reynzt vera hægt í nágrannalöndum okkar. Í Danmörku er útborgun í íbúð ekki 75% eins og hér, heldur 10%. Þar greiða menn 30 þúsund krónur í upphafi til að eignast 300 þúsund króna íbúð á löngum tíma.

Húsnæðismálastofnunin hefur ekki bolmagn til þessa. Hún gengur bara í leiðslu, býður sumum upp á beztu kjör upp á þau býti, að aðrir komist seint og illa að. Hið opinbera rekur hana af óskhyggju einni saman.

Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægur þáttur lausnar þessa máls. En þeir eru ekki heldur nógu öflugir til að standa undir 40 ára lánum fyrir heildarverði íbúða félagsmanna. Þeir ráða við hluta verðsins, en ekki allt.

Eins og Lúðvík Gizurarson benti á í kjallaragreininni er óhjákvæmilegt, að bankakerfið taki á sig skuldbindingar í þessu efni. Og þær þurfa að vera langtum meiri en breyting lausaskulda í nokkurra ára lán.

Að sjálfsögðu er auðveldara um að tala en í að komast. Bankar geta ekki lánað til 40 ára, án þess að draga úr lánagetu á öðrum sviðum. En þeir verða samt, svo að ekki hrynji gamalt og gróið sjálfseignarkerfi á íbúðum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið