Þannig byrjaði ballið

Punktar

Samkvæmt nýjustu kenningunni kviknaði líf fyrst á jörðinni við eldgos eða hveragos á hafsbotni fyrir fjórum milljörðum ára. Slík gos mynda fínriðið net af járnsúlfíði og lífið á að hafa kviknað í möskvum þess. Fyrri kenningar töldu líf hafa byrjað með sameindum, en þessi kenning gerir ráð fyrir, að það hafi byrjað með frumum. Í vísindatímaritinu Nature er sagt frá þessari kenningu William Martin við háskólann í Düsseldorf og Michael Russell við rannsóknastöð skozku háskólanna í Glasgow. Hún byggist á nýjum rannsóknum á sérkennilegu og súrefnislausu lífi á jarðhitasvæðum hafsbotnsins. Þar hafa fundizt gerlar, sem flýta efnahvörfum með hjálp járnsúlfíðs.