Þá sjaldan Mogginn kemur ekki, nenni ég hvorki að fara á vefinn né að kvarta, enda er ég of gamall til að lesa nýju blaður-fylgiblöðin fyrir bjána og ekki nógu gamall til að lesa minningargreinar fyrir ellimóða. Taugaveiklaðar breytingar á Mogganum undanfarin misseri hafa ekki skilað sér í bættum fréttum af því, sem máli skiptir. Þegar Fréttablaðið vantar, sem gerist oftar, fer ég hins vegar strax á vefinn og skoða blaðið í raunverulegri mynd til að sjá allra brýnustu fréttir og þar á ofan raunverulega uppsetningu þeirra í blaðinu, sem segir mér töluvert til viðbótar við textann. Mér finnst gott að geta séð raunverulegar blaðsíður á skjánum.