Þegar Íslendingar dóu út

Greinar

Íslendingar lifðu í fimm aldir á Grænlandi, en dóu síðan út og hefur ekki sést tangur eða tetur af þeim, til dæmis ekki í genum ínúíta. Síðasta skip fór frá Grænlandi árið 1410 og þá höfðu þar í landi verið giftingar og dómar eins og ekkert hefði í skorizt og ekkert mundi í skerast í náinni framtíð.

Jared Diamond segir í bókinni Collapse frá fornleifagreftri í ruslahaugum Íslendinga í Grænlandi. Þar kemur fram, að þeir byrjuðu að búa með kýr og kindur að íslenzkum hætti og borðuðu lítið af sel og minna af fiski. Þeir eyddu haga og tún með ofbeit og höfðu enga viði til húsa- og skipasmíða.

Grænland var viðkvæmara fyrir ofbeit en Ísland. Sjá má, að kýr lögðust af nema á prestsetrum og kindum fækkaði. Á sama tíma héldu Grænlendingar áfram að klæðast að íslenzkum hætti og notuðu nýjustu tízku, svo sem sjá má af Parísarhúfunni, tízkuflík þess tíma, sem fannst við uppgröft í kirkjugarði.

Inúítar veiddu hval og mikinn sel, svo sem hringanóra á vorin, þegar Íslendingar sultu. Þeir klæddust selskinnum og réru á klæðskerasaumuðum húðkeipum með frábæra skutla, sem voru ein mestu tækniundur þess tíma. Þeir kunnu að lifa innan í náttúrunni og lifðu af harðindi og kuldaskeið.

Ekki er hægt að sjá, að Íslendingar hafi verið gefnir fyrir samskipti við inúíta, verzlað við þá eða lært af þeim. Þeir öfluðu sér ekki heldur nauðsynja í stað náhvalstanna, sem þá voru eftirsóttar í Evrópu, keyptu ekki skipavið og járn, heldur kirkjuvið, steinda kirkjuglugga og rauðvínsglös.

Maður sér fyrir sér, að Íslendingar hafi haldið fast í sinn uppruna, ofbeitt landið með kvikfjárrækt, verið kirkjuræknir og byggt kirkjur eftir tízku hvers tíma. Þeir hafi jafnvel klæðst Evróputízku hvers tíma. Þeir hafi ekki lifað innan í náttúru Grænlands, heldur lagzt á hana sem aðskotadýr.

Jared Diamond telur, að Íslendingar á Grænlandi hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að deyja út. Miðað við þekkingu þess tíma á þessum stað hafi mátt ljóst vera, að lifnaðarhættir inúíta hafi verið líklegir til árangurs, en kvikfjárrækt kristinna tízkuhúfudrósa mundi hafa dauðann í för með sér.

Því fór fyrir Íslendingum á Grænlandi eins og sumum öðrum ríkjum, sem ýmist neituðu að umgangast náttúruna sjálfa eða annað fólk með hæfilegri virðingu og sáttfýsi.

Jónas Kristjánsson

DV