“Sjokk” hét það í einu stærsta dagblaði Noregs fyrir réttri viku, þegar fréttist um lýsingu Eyjólfs K. Jónssonar alþingismanns á sjónarmiðum allra íslenzku stjórnmálaflokkanna í Jan Mayen deilunni. Hálfur Noregur stóð á öndinni.
Gerði Eyjólfur þó ekki annað en að endurtaka lýsingu á stefnu, sem Norðmönnum hefur verið margtjáð, að minnsta kosti síðan í fyrrahaust. Það er því gersamlega út í hött, að þessi lýsing þurfi að valda “sjokki” eða losti í Noregi.
Þetta er bara eitt dæmi um þá sambandserfiðleika, sem frá byrjun hafa háð viðræðum Íslendinga og Norðmanna um Jan Mayen. Þeir valda því, að embættismenn, fjölmiðlamenn og almenningur í Noregi vita lítið um skoðanir á Íslandi.
Fréttamiðlun milli Íslands og Noregs er eins konar einstefnuakstuur. Íslenzkir fjölmiðlamenn geta lesið norsk blöð og segja frá ýmsu Jan Mayen efni þeirra í íslenzkum fjölmiðlum. Íslendingar vita því um kröfur Norðmanna.
Við þurfum ekki að lýsa því sem losti, þótt norsk stjórnvöld ítreki hugmyndir sínar í þessu deilumáli. En það er óneitanlega hvimleitt að standa andspænis meiri eða minni vanþekkingu í Noregi á íslenzkum sjónarmiðum.
Svona hefur þetta verið frá upphafi. Í fyrrasumar virtust norskir stjórnmálamenn telja, að þeir væru um það bil að ná samkomulagi við Íslendinga um Jan Mayen. Og um haustið fögnuðu þeir stuðningi Íslendinga við norska efnahagslögsögu norður þar!
Hugsanlegt er, að þetta stafi af klókindum. Með því að túlka sjónarmið mótherjans mildar en eðlilegt er, má hvað eftir annað láta líta svo út, sem hann sé stöðugt að færa sig upp á skaftið með frekjulegri kröfur.
Sé þessi túlkun röng, er tæpast um annað að ræða en stórt gat í miðlun upplýsinga frá Íslandi til Noregs. Þetta gat getur orðið til með ýmsum hætti, til dæmis með skorti á árvekni í sendiráðum beggja deiluaðila.
Það getur líka sumpart stafað af norskri oftrú á ummæli einstakra íslenzkra stjórnmálamanna, til dæmis Benedikts Gröndal, einkum þegar þau hafa verið þýdd á villandi hátt á norsku eða sett fram af tæpri kunnáttu í norsku.
Einnig getur þetta stafað af flóknum þýðingavegi margra frétta af Íslandi. Þeim er fyrst snúið úr íslenzku á dönsku og síðan á norsku. En hver sem skýringin er, þá eru dæmi siðustu viku fleiri en lostið frá Eyjólfi Konráð.
Dagblaðið, Morgunblaðið og Þjóðviljinn birtu á þriðjudaginn fyrir rúmri viku efnislega samhljóða viðtöl við Knut Frydenlund, utanríkisráðherra Norðmanna, um Jan Mayen málið, og Vísir fylgdi á eftir degi síðar. Alls staðar var rétt með farið.
Á miðvikudaginn voru svo norskir embættismenn í öngum sínum út af tilvitnunum norska útvarpsins og sjónvarpsins í viðtal Dagblaðsins við Frydenlund. Þeir spurðu jafnvel, hvort utanríkisráðherrann hefði raunverulega talað svona af sér!
Sumpart hafði Frydenlund auðvitað neyðzt til að svara spurningum, sem hann var ekki vanur frá fjölmiðlamönnum í Noregi, t.d. um misjafna þyngd svonefnds sanngirnissjónarmiðs og miðlínusjónarmiðs á hafréttarráðstefnunni.
Auðvitað varð Frydenlund að viðurkenna, að sanngirnissjónarmiðin hafa unnið á að undanförnu. Þetta virtust vera nýjar fréttir í Noregi, því að norskir fjölmiðlamenn virtust vera hissa, þegar þær bárust til baka til Osló, um Reykjavík og Höfn.
Greinilega þarf að koma á tvístefnuakstri í miðlun upplýsinga milli Íslands og Noregs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið