Þegar tölur verða hættulegar.

Greinar

Tölur eru yfirleitt sérdeilis nytsamlegar. Þær geta sett flókinn raunveruleika í einfalt form, svo að hægt er að meta hann og bera saman við eitthvað annað. En í höndum stjórnmálamanna geta tölur orðið beinlínis þjóðhættulegar.

Við getum tekið sem dæmi tölur Þjóðhagsstofnunar um 6,6% tap af frystingu, 9,4% hagnað af skreið og 13,1 % hagnað af saltfiski. Þessar tölur sýna í hnotskurn, að verkun í saltfisk og skreið gengur mun betur en frysting.

Raunveruleikinn að baki er samt flókinn. Tölurnar sýna ekki, að sum verkun í saltfisk og skreið er rekin með tapi og að sum frysting er rekin með hagnaði. Tölurnar eru bara meðaltöl af rekstri margra tuga ólíkra fyrirtækja.

Vel rekin og gróin frystihús eru rekin á nálægt núlli um þessar mundir, sem getur engan veginn talizt nógu gott, sérstaklega ekki til frambúðar. Hins vegar er mikið tap á bæði hinum illa reknu og hinum óhófssömu í fjárfestingu.

Hin nýlega verðtrygging hefur sýnt fram á, að margur rekstur er ekki nógu arðbær til að standa undir vöxtum. Þetta er um að kenna rekstrinum og fjárfestingum tengdum honum, en ekki verðtryggingunni, svo sem margir halda.

Verðtrygging á smám saman að leiða til jafnvægis á fjármagnsmarkaði, svo að hæfilegt fjármagn sé til reiðu í arðbæran rekstur. Hingað til hefur mikið af því verið misnotað sem eins konar gjafafé handa kvígildum.

Athafnamenn í fiskvinnslu geta séð tvennt af tölunum hér að ofan. Í fyrsta lagi borgar sig í bili að sveigja sem mest frá frystingu til saltfisks og skreiðar. Í öðru lagi verður að fara varlega í fjárfestingum.

Þjóðhættulegir stjórnmálamenn sjá hins vegar allt annað í tölunum. Þeir sjá, að meðaltalið á fiskvinnslunni í heild er 2% hagnaður. Þeir halda, að málið megi leysa með því að færa peninga frá saltfiski og skreið til frystingar.

Í framkvæmd yrði slíkt mikilvægt skref í þá átt að taka markaðinn endanlega úr sambandi. Millifærslur leiða fljótt til þess, að enginn veit lengur, hvað er hagkvæmt og hvað ekki, og að framleiðni bíður mikinn hnekki.

Þjóðhagslega er auðvitað mun hagkvæmara að láta tölurnar ýta að sinni stærri hluta fiskvinnslunnar til gróðavænlegri þátta heldur en að reyna að frysta núverandi óhagkvæmni með “félagslegum” millifærslum.

Svipaðan lærdóm má líka draga af tölum Þjóðhagsstofnunar um 1,4% tap af bátum, 2,5% tap af litlum skuttogurum og 12% tap af stórum skuttogurum. Eini munurinn er sá, að hér geta þjóðhættulegir stjórnmálamenn ekki millifært.

Að baki þessara talna liggur hin einfalda staðreynd, að fiskiskipaflotinn er orðinn of stór. Hinn mikli fjármagnskostnaður nýrra skipa er svo mikill, að rekstur þeirra getur ekki orðið arðbær, þótt vel sé haldið á spöðunum.

Tapið á nýjustu skuttogurunum er yfir 20% og jafnvel yfir 30%. Þetta sýnir ekki, að verðtrygging sé ósanngjörn. Þetta sýnir bara, að ekki er að sinni rúm fyrir ný og fjármagnsþung skip í fiskiskipaflotanum.

Þeir, sem nú sækja fast í undanþágur til kaupa á skuttogurum, vita af tölunum, að gífurlegur taprekstur mun fylgja í kjölfarið. Þeir eru í rauninni að gera út á skattgreiðendur, – með hjálp þjóðhættulegra stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið