Pantanir hjá skipafélögum um flutning búslóða til útlanda hafa verið óvenjulega miklar í sumar. Yfirvofandi landflótti í haust bendir ekki til mikillar bjartsýni meðal þessa fólks um, að svokallaður efnahagsbati skili því bættum lífskjörum á næstu mánuðum og árum.
Efnahagsbatinn hefur bætt rekstur fyrirtækja. Þau hafa hagrætt seglum eftir vindi og fundið sér nýtt jafnvægi með færra starfsfólki, meira álagi á starfsfólki og lakari kjörum þess. Þetta hefur sumpart verið nauðsynleg áminning um aukinn og efldan starfsaga.
Samt var reiknað með, að traustari grundvöllur fyrirtækja mundi efla kjark ráðamanna þeirra og að þeir reyndu að færa út kvíarnar. Það hefði leitt til útþenslu atvinnulífsins og aukinnar atvinnu fólks. Þetta hefur ekki gerzt. Fyrirtækin eru ennþá afar varfærin.
Ferðaþjónustan er eina bjartsýna atvinnugreinin. Flugleiðir hafa ákveðið að ráða 80 nýja starfsmenn vegna aukins Atlantshafsflugs á næsta ári. Þessi mikilvæga ákvörðun fyrirtækisins eflir vonandi bjartsýni annars staðar í ferðaþjónustunni og skyldum atvinnugreinum.
Á öðrum sviðum ríkir stöðnun og vonleysi. Sjávarútvegurinn reynir að halda sjó við árviss skilyrði minnkandi afla og bættrar nýtingar afla. Þetta hefur jafnazt út. Með aukinni hagræðingu hefur batnað rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, en atvinna og tekjur munu ekki batna.
Þeim fer fækkandi, sem líta á landbúnað sem atvinnugrein. Af stjórnvöldum er hann á báti með velferðarkerfinu. Þrjár af hverjum fjórum krónum í tekjum landbúnaðarins koma beint eða óbeint frá ríkisvaldinu. Engum dettur í hug, að atvinnutækifærum fjölgi í landbúnaði.
Timburmennirnir frá fjárfestingarfylliríi allra síðustu áratuga koma nú fram í fækkun verkefna í byggingariðnaði og engum horfum á neinum bata á því sviði í náinni framtíð. Enda er svartsýni iðnaðarmanna meiri en flestra annarra stétta og landflótti þeirra meiri.
Ísland er orðið svo staðnað land, að leitun er að háskólagrein, þar sem útskrifaðir sérfræðingar geta verið nokkuð vissir um atvinnu að loknu námi. Atvinnuskorturinn hvetur marga til framhaldsnáms í útlöndum, sem síðar leiðir til atvinnu og búsetu í útlöndum.
Atgervisflóttinn er ógnvænleg afleiðing þess, að vonir hafa daprazt. Atvinnulífið er einhæft og þarf lítið af háskólafólki. Opinberi geirinn hefur ekki ráð á fleira starfsliði. Helzta undankomuleið menntaðs atgervisfólks er að reyna að selja þekkingu sína og hæfni erlendis.
Hugbúnaðarvinna er gott dæmi um þetta. Hún er þess eðlis, að fólk getur fengið verkefni hvar sem er í heiminum. Hér er hún heft af völdum einangrunar, sem stjórnvöld hafa magnað með því að láta undir höfuð leggjast að tryggja stafrænar samgönguæðar til útlanda.
Þess vegna er nokkurn veginn ljóst nú þegar, að svokölluð hraðbraut upplýsinga og hin gífurlega atvinnuaukning Vesturlanda á því sviði mun fara að mestu leyti framhjá Íslandi, sem er að einangrast sem eitt allsherjar Árbæjarsafn til minningar um landbúnað við Dumbshaf.
Stuðningur kjósenda við mestu íhaldsflokka landsins og rammur íhaldsandinn yfir vötnum nýju ríkisstjórnarinnar hefur sannfært marga um, að svokallaður efnahagsbati muni alls ekki skila sér í auknum umsvifum atvinnulífsins og batnandi lífskjörum í landinu.
Þegar vonin brestur, er nærtækt að leita á vit menntunar, tækifæra og ævintýra í útlöndum. Því hringir síminn oft hjá búslóðadeildum skipafélaga þessa dagana.
Jónas Kristjánsson
DV