Þeir áttu að vita þetta.

Greinar

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði um helgina í blaðaviðtali, að hækkun kjarnfóðurgjalds væri einhliða ákvörðun Framsóknarflokksins, ekki borin upp í ríkisstjórninni og ekki kynnt samstarfsflokknum. Hann sagði, að þetta væri ekki rétta leiðin til að hafa stjórn á búvöruframleiðslunni.

Í fyrra sagði formaðurinn, að bókað hefði verið samkomulag í ríkisstjórninni um, að kjarnfóðurgjald yrði lagt niður vorið 1985. Sá tími er nú liðinn og gjaldið hefur í tvígang verið hækkað. Í fyrra var það 33%, um áramót varð það 60% og núna síðast 1. júlí 130%!

Formaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar sama flokks virðast ekki geta hamlað gegn þessum yfirgangi. Líklegt er, að því valdi nokkur viljaskortur. Sumir ráðherrar flokksins eru hálfgerðir framsóknarmenn og hallir undir vilja Framsóknarflokksins í málum landbúnaðar.

Þeim finnst samt þægilegt að geta sagt neytendum og bændum í svína- og alifuglarækt, að þetta sé allt Framsóknarflokknum að kenna. Sú röksemdafærsla heldur engu vatni, en virðist þó duga til að hindra Sjálfstæðisflokkinn í að stöðva yfirgang baráttamanna kjarnfóðurgjaldsins.

Markmið gjaldsins eru tvenn. Í fyrsta lagi er verið að þvinga neytendur til að draga úr neyslu eggja, kjúklinga og svínakjöts og auka í staðinn neyslu mjólkurvara og kúa- og kindakjöts. Fyrrnefndu afurðirnar voru þannig hækkaðar um 12% um áramót og 15-20% núna.

Kjarnfóður er margfalt stærri hluti í rekstri svína- og alifuglabúa en í rekstri hefðbundinna búa. Því hærra sem kjarnfóðurgjald er, þeim mun meira skekkjast verðhlutföll milli hefðbundinna og fóðurfrekra búgreina, hinum síðarnefndu í óhag.

Hitt markmið gjaldsins er að auka völd Framleiðsluráðs landbúnaðarins og gera fleiri sjálfstæða bændur að láglaunamönnum ráðsins. Þetta er í samræmi við þá stefnu ráðsins, að svokölluð framleiðslustjórnun nái til allra búgreina, ekki aðeins hinna hefðbundnu.

Kjarnfóðurgjaldið er nefnilega notað sem stýritæki í landbúnaði. Hluti þess er notaður til að greiða niður áburð og auka ráðstöfunarfé til útflutningsuppbóta, svo að auðveldara sé að halda uppi offramleiðslu óseljanlegra afurða hins hefðbundna landbúnaðar.

Annað fer í ýmsa endurgreiðslustjórn á vegum Framleiðsluráðs. Þar er til dæmis svonefndur Framleiðnisjóður, sem er ekki réttnefndur, því að hann hefur margs konar hlutverk og er til dæmis eins konar bjargráðasjóður fyrir offjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði.

Aðrar endurgreiðslur renna til verkefna, sem Framleiðsluráð hefur sérstakt dálæti á. Þau eru fyrst og fremst á vegum þeirra bænda, sem vilja losna út úr markaðskerfinu í svína- og alifuglarækt og komast inn í tryggingakerfi hins hefðbundna landbúnaðar.

Hinir sjálfstæðu og stórvirku framleiðendur, sem hafa skilað aukinni framleiðni í lægra afurðaverði til neytenda, sjá nú kreppt að sér á ýmsa vegu. Í uppsiglingu er kvótakerfi, sem á að tryggja hinum slakari framleiðendum skjól í hækkuðu afurðaverði.

Þingmenn, ráðherrar og formaður Sjálfstæðisflokksins geta ekki haldið fram, að þeir hafi ekki verið varaðir við leiftursókn Framleiðsluráðs. Síðast í júní var þeim margbent á, að þeir væru að berjast fyrir stórhættulegum lögum um ráðið. Þeir áttu að vita þetta.

Jónas Kristjánsson.

DV