Ríkisstjórnin og málflutningsmenn hennar í Þjóðhagsstofnun og á sjónvarpsfréttastofum leggja mikla áherzlu á að kenna væntanlegum kjarasamningum um núverandi verðbólgu og önnur vandræði, sem tvær ríkisstjórnir hafa hjálpazt að við að kalla yfir þjóðina.
Frá því nokkru fyrir áramót hafa valdsmenn þessir margtuggið, að kjarasamningarnir á næsta leiti valdi óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Birtar hafa verið tölur um gífurleg verðbólguáhrif þeirra. Ennfremur er sagt, að þeir muni valda gengislækkun krónunnar.
Þjóðhagsstofnun hefur meira að segja látið frá sér heyra, að núverandi raunvextir, sem mörgum finnast óþægilega háir, séu væntanlegum kjarasamningum að kenna. Virðist hún telja, að möguleikinn á verkföllum og launahækkunum sé að rugla lántakendur í ríminu.
Háu vextirnir stafa auðvitað ekki af slíkri framtíðarsýn, heldur af þegar fram kominni reynslu lánamarkaðarins. Ríkið hefur, einkum síðasta árið, haft forgöngu um að auka eftirspurn peninga og minnka framboð þeirra. Þetta eitt er nægileg skýring á háum vöxtum.
Ríkið hefur aukið eftirspurn með því að slást af hörku um peninga og yfirbjóða aðra með freistandi tilboðum um háa vexti. Um leið hefur það minnkað framboð með því að halda krónugengi föstu og fá þannig fólk til að nota sparifé sitt til að kaupa innfluttar vörur.
Verðgildi krónunnar hefur þegar rýrnað. Ennfremur vita allir, að ríkisstjórnin er að fresta formlegri viðurkenningu þess fram yfir kjarasamninga. En verðgildið er fallið og væri fallið, jafnvel þótt launþegasamtök semdu um óbreytt krónukaup og fallinn kaupmátt.
Verðbólgan, er komst niður í 13% í hittifyrra, tvöfaldaðist í fyrra. Hún var þá um 25% að meðaltali, en komst upp í 55% núna um áramótin. Ekki er hægt að kenna ógerðum kjarasamningum um þessa verðbólgu eða verðbólguna, sem bætist við, er genginu verður breytt.
Upphafs þessara ófara er að leita í hugleysi næstsíðustu ríkisstjórnar. Hún missti móðinn í samningum við opinbera starfsmenn fyrir ári og gaf allt laust til að kaupa sér fylgi í kosningunum, sem voru í aðsigi. Hún sat síðan með hendur í skauti fram yfir kosningar.
Framhalds ófaranna er svo að leita í hugleysi núverandi ríkisstjórnar, sem hefur í vetur verið dugleg við að reyna að kaupa sér fylgi heima í héruðum. Afleiðingin er gífurleg þensla á rekstri og framkvæmdum ríkisins, sem eykur skattbyrðina um nokkra milljarða króna.
Ríkisstjórnina leiðir svo fjármálaráðherra, sem er óvenjulega ósvífinn í málflutningi og hagar sér eins og lífið sé málfundur í miðskóla. Flokksráð Alþýðuflokksins maulaði skoðanasætindin úr lófa ráðherrans um helgina. Ríkisstjórnin vonar, að svo verði um fleiri.
Stjórninni hefur mistekizt að spara fé. Hún hefur búið til vítahring sex milljarða aukningar á skattbyrði, gengisfölsunar og sex milljarða halla utanríkisviðskipta, 55% verðbólgu, svo og gífurlegra raunvaxta, sem samt megna ekki að hamla gegn þenslu vítahringsins.
Hugleysið er meira en flestra undanfarinna stjórna, af því að stjórnin er sundurþykk og leitar þægilegra lausna, sem yfirleitt kosta fé. Hugleysið hefur svo leitt til uppgjafar, sem lýsir sér í, að ráðherrar og málflutningsmenn þeirra vísa ábyrgð til ógerðra kjarasamninga.
Þessir samningar munu ekki framleiða nýja erfiðleika, heldur lítillega auka vandkvæði, sem síðasta ríkisstjórn hóf og núverandi stjórn breytti í öngþveiti.
Jónas Kristjánsson
DV