Matthías Bjarnason samgönguráðherra vill, að börnin þín og mín borgi göt, sem hann vill bora í fjöll fyrir útlenda peninga. Bæði hér í blaðinu og á öðrum vettvangi verður reynt að spyrna á móti. Samt er líklegt, að ráðherranum takist að auka skuldabyrði þjóðarinnar.
Hann er löglega kjörinn til að fara með mikil völd. Kjósendur hafa átt og munu áfram geta átt þess kost að hvetja eða hindra áhugamál á borð við göt í fjöll. Þess vegna er enginn vafi á, að þau börn okkar, sem ekki flýja land, verða að borga skuldir, er hann stofnar til.
Í mörgum löndum þriðja heimsins hafa valdamenn ekkert slíkt umboð, sem samgönguráðherra okkar hefur. Þjóðir þeirra hafa ekki tækifæri til að ákveða, hvort þeir eða aðrir skuli hafa vald til að ráða. Þjóðir án sjálfsákvörðunarréttar bera ekki ábyrgð á skuldum.
Víða hafa herforingjar og lögregluforingjar brotizt til valda og steypt löglegum stjórnum úr sessi. Bankastjórar vestrænna banka virðast ímynda sér, að slíkir menn séu ábyrgari í meðferð fjármuna en lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn. Það er hreinn og tær misskilningur.
Sagan um allan hnöttinn sýnir, að herforingjar og lögregluforingjar eru margfalt ábyrgðarminni en samgönguráðherrar á Íslandi. Hvergi er óráðsían meiri en undir stjórn þeirra, svo sem sýna dæmin frá Argentínu og Brasilíu. Þeir moka inn erlendu lánsfé.
Herforingjar og lögregluforingjar eru mun kræfari en aðrir við að koma hluta af lánsfénu inn á einkareikninga í svissneskum bönkum. Þeir eru mun kræfari en aðrir við að reisa kröflur og þörungaver í mun stærri stíl en við þekkjum – til þess að gerast þar sjálfir fínir forstjórar.
Síðast en ekki sízt telja herforingjar og lögregluforingjar sig þurfa gífurlegt fjármagn til kaupa á leikföngum hermanna, stríðsþotum og skriðdrekum og helzt kjarnorkusprengjum. Samt er öryggi þessara ríkja yfirleitt ekki ógnað að utan. Hernum er stefnt gegn þjóðinni.
Ef bankastjórar á Vesturlöndum telja sér heimilt að lána fé til einkarekstrar, gælufyrirtækja og hernaðarleikfanga umboðslausra glæpamanna í þriðja heiminum, eiga þeir að gera það á eigin ábyrgð. Þeir mega ómögulega geta ætlazt til, að kúgaðar þjóðir borgi þetta.
Staðreyndin er hins vegar, að bankastjórar, sem opna alla sjóði sína fyrir heimsfrægum fúlmennum á borð við argentínska herforingja, loka þeim strax og heimta endurgreiðslur, þegar sannir lýðræðissinnar í Argentínu taka við þrotabúinu. Þetta er gersamlega siðlaust.
Það er alveg laukrétt hjá Castro á Kúbu, að slíkar skuldir á ekki að endurgreiða. Þær voru lánaðar með veði í þjóðum, sem valdamennirnir höfðu ekki umboð til að veðsetja. Það er líka laukrétt hjá Garcia í Perú að neita að borga meira en 10% af árlegum útflutningstekjum.
Ef íslenzkur banki lánar fé með veði í eignum, sem eru ofmetnar eða ekki til, fær hann venjulega skell. Sama á að gilda um hina stóru banka, sem lána fé með veði í eignum, sem lántakendur hafa ekki umboð til að veðsetja. Þeir eiga að fá sinn skell og sína lexíu.
Enginn vafi er á, að útbreiðsla margs konar glæpastjórna í heiminum er studd hömlulitlum lánveitingum vestrænna bankastjóra, sem einhverra hluta vegna hafa mesta trú á slíku stjórnarfari. Sú óráðsía á ekki að varða neitt fátækar þjóðir, þótt okkar börn verði hins vegar að greiða rétt myndaðar skuldir Matthíasar.
Jónas Kristjánsson.
DV