Þeir elska Pútín sinn

Punktar

Sunday Times lýsir í morgun Rússlandi og kemst að sömu niðurstöðu og ég hef nokkrum sinnum lýst í bloggi. Almenningur í Rússlandi elskar Pútín, því að hann er andvígur lýðræði. Rússar vilja hverfa frá lýðræði til einræðis. Sumpart voru hefðir einræðis orðnar rammar og sumpart var reynsla Rússa af lýðræði skelfileg á Jeltsínstímanum. Þá komu þangað róttækir fræðimenn frá Bandaríkjunum og Alþjóðabankanum. Þeir predikuðu snögga einkavæðingu atvinnulífsins. Á skömmum tíma rýrnuðu ellilaun niður í nánast ekkert og venjuleg laun hættu að duga til framfæris. Síðan hefur vestrið verið hatað.