Þeir eru klárari en við

Greinar

Nýsjálendingar hafa að því leyti svipaðar aðstæður og Íslendingar, að sjávarútvegur þeirra verður að keppa á erlendum markaði án þess að vera á framfæri hins opinbera eins og sjávarútvegur margra fiskveiðiþjóða, svo sem Norðmanna og þjóða Evrópubandalagsins.

Nýsjálendingar hafa að því leyti verri aðstæður en Íslendingar, að landbúnaður þeirra verður að keppa á erlendum markaði án þess að vera á framfæri hins opinbera eins og landbúnaður flestra þjóða Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslands, sem gengur einna lengst allra.

Nýsjálendingar hafa fundið leiðir til að láta sjávarútveg og landbúnað standa sig sem hornsteina þjóðarbúsins. Þeir hafa tekið erfiðar ákvarðanir, sem við höfum ekki treyst okkur í hér á landi. Þeir hafa gert á atvinnulífinu uppskurð, sem við höfum neitað okkur um.

Langsamlega mikilvægasti þátturinn í velgengni Nýsjálendinga á þessu sviði er, að þeir hafa afnumið opinberan stuðning við atvinnugreinarnar. Þeir hafa að vísu kvótakerfi í sjávarútvegi, en leggja ekki hömlur á, að hann gangi kaupum og sölum til hæstbjóðandi.

Fyrir sex árum var ástand landbúnaðar í Nýja-Sjá-landi að sumu leyti svipað og á Íslandi. Samanlagður ríkisstuðningur nam þriðjungi af verðmæti framleiðslunnar, svipað hlutfall og þá ríkti í Vestur-Evrópu. Þá hófu Nýsjálendingar í áföngum að afnema stuðninginn.

Til þess að vera samkeppnishæfir á erlendum markaði fá nýsjálenzkir bændur aðeins einn fimmta hluta þess verðs, sem vesturevrópskir bændur fá, og einn þriðja hluta þess verðs, sem bandarískir bændur fá. Þetta hefur nýsjálenzkum bændum tekizt að lifa af.

Þeir hafa neyðzt til að hagræða markaðsmálum sínum. Þeir flytja minna af dilkskrokkum úr landi og meira af tilbúnum sjónvarpsréttum lambakjöts. Þeir flytja minna úr landi af einföldum brauðosti og meira af sérhæfðum ostum. Og þeir auglýsa “hreint land”.

Nýsjálendingar höfðu ekki efni á að bera landbúnaðinn á bakinu, af því að þeir þurftu að lifa á honum. Þeir tóku hann af bakinu á sér á sex árum. Og það merkilega hefur gerzt, að landbúnaðurinn lifir áfram og leggur sitt af mörkum í nýsjálenzka þjóðarbúið.

Heimsmarkaðsverð á búvöru stjórnast ekki af niðurgreiðslum og uppbótum Evrópubandalagsins. Hinar opinberu aðgerðir í Vestur-Evrópu miðast við að losa bandalagið við búvöru á sama verði og ýmsar þróaðar landbúnaðarþjóðir geta án nokkurs stuðnings ríkisins.

Í þessum hópi eru lambakjötsframleiðendur á borð við Nýsjálendinga og Ástrali, nautakjötsframleiðendur á borð við Argentínumenn og kornvöruframleiðendur á borð við Bandaríkjamenn. Þar eru líka ýmsar þjóðir þriðja heimsins og Austur-Evrópu, þar sem laun eru lág.

Við getum ekki keppt við Nýsjálendinga í lambakjöti og ull. Þar hefur hver bóndi 1650 kindur, en hér 355. Þar fær hver bóndi 16,8 tonn af kjöti, en hér 6,9. Þar fær hver bóndi 6,6 tonn af ull, en hér 0,62. Við getum því aðeins keppt, að við finnum okkur verðmæta sérstöðu.

Þá sérstöðu höfum við hins vegar í sjávarútvegi. En við notum hana ekki eins vel og Nýsjálendingar nota sína af því að við höfum komið á fót stirðu og mann-freku skömmtunarkerfi, þar sem kvótar mega af byggðaástæðum ekki ganga frjálsum kaupum og sölum.

Við ættum að skoða betur, hvað Nýsjálendingar hafa verið að gera. Þeir hafa lent í mun meiri erfiðleikum en við og hafa unnið sig mun betur úr vandanum.

Jónas Kristjánsson

DV