Þeir framlengja kreppuna

Greinar

Verðbólguhatur nútímans verður skammlífara en verðbólguást fyrri áratuga. Afleiðingar verðbólguhaturs ráðandi þjóðfélagsafla eru miklu alvarlegri en afleiðingar verðbólguástar, enda eru menn nú farnir að hugsa til verðbólguáranna sem gullaldar í efnahagsmálum.

Verðbólguhatrið lýsir sér nefnilega í því, að menn verða ófærir um að viðurkenna, að verðgildi krónunnar er fallið. Þetta væri ekki vandamál, ef krónan réði sjálf verðgildi sínu eins og hlutabréf eða þorskur á markaði og gæti þannig jafnað sveiflur í efnahag þjóðarinnar.

Í stað þess að láta krónuna í friði hafa menn fryst gengi hennar með handafli og neyðast því um síðir til að fella það með handafli. Áður en menn fást til slíkra læknisverka verður misræmið búið að valda miklum efnahagsskaða, svo sem dæmin sanna einmitt núna.

Kreppan um þessar mundir stafar ekki af aðsteðjandi aðstæðum, heldur er hún að mestu leyti heimatilbúin. Í rúman áratug hefur miklum skuldum verið safnað í útlöndum í skjóli gengisskráningar og peningarnir notaðir til offjárfestingar í landbúnaði og sjávarútvegi.

Offjárfestingin í sjávarútvegi hefur stuðlað að óhófsveiðum og leitt til gæftaleysis. Þess vegna er vandinn í sjávarútvegi um þessar mundir meiri en í öðrum atvinnugreinum. Og með hruni sjávarútvegs hrynur einnig allt annað í hagkerfi, sem byggist á sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin og valdatökumenn atvinnumálanefndar munu komast að niðurstöðu, sem felur í sér að velta hluta vandans yfir á börnin og barnabörnin. Það verður gert með því að taka lán í útlöndum til að fjármagna ýmsar brýnar skópissingar, svo sem atvinnubótavinnu.

Það magnar bara kreppuna að nota lánsfé til að fjármagna einnota aðgerðir í atvinnubótaskyni, svo sem til að flýta opinberum framkvæmdum. Lánsfé á eingöngu að nota til aðgerða, sem hafa margfeldisáhrif, svo sem til uppbyggingar í arðbærustu atvinnugreinunum.

Valdatökumennirnir úr samtökum vinnumarkaðarins munu fá því framgengt, að skattar fólks verði hækkaðir til að lina þjáningar fyrirtækja. Í megindráttum verður farið eftir þeirri blekkingu, að þeir, sem þegar borga háa skatta, séu hinir raunverulegu hátekjumenn.

Hinir raunverulegu hátekjumenn sleppa við að borga skatta, bæði þá, sem nú eru til, og hina, sem ríkisstjórnin og valdatökumenn munu finna upp til viðbótar. Skattahækkanir byggja jafnan á þeirri ímyndun, að skattskýrslur séu nothæfur grundvöllur skattlagningar.

Á næstu vikum verður líklega fléttað saman aðgerðum úr gjaldþrotastefnu ríkisstjórnarinnar og skópissingastefnu valdatökumanna samtaka vinnumarkaðarins í atvinnumálanefndinni. Þannig verður kreppan framlengd með hámörkun tilheyrandi þjáninga.

Enginn vill gera það, sem æ fleiri hagfræðingar sjá, að gera þarf. Í fyrsta lagi þarf að létta landbúnaðinum af herðum neytenda og skattgreiðenda með því að leyfa hindrunarlausan innflutning ódýrrar búvöru og hætta ríkisstyrkjum og búvörusamningum og skyldu svindli.

Í öðru lagi þarf að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi um leið og gengi krónunnar verður gefið frjálst. Með gengislækkun er vegið upp á móti veiðileyfagjaldinu í afkomu sjávarútvegsins. Um leið næst heilbrigðari staða sjávarútvegs í litrófi atvinnulífsins.

Ríkisstjórn og atvinnumálanefnd eru sammála um þann læknisdóm, að bezta ráðið við niðurgangi sé að meina sjúklingnum algerlega að fara á salernið.

Jónas Kristjánsson

DV