Þeir fyrirlíta kjósendur

Greinar

Ráðherrar okkar sýna í viku hverri, að þeir fyrirlíta neytendur landsins, það er að segja allan almenning í landinu. Um leið eru þeir að fyrirlíta eigin kjósendur. Það hlýtur að stafa af, að þeir vita, að þeir muni komast upp með það, þegar kemur að næstu alþingiskosningum.

Ríkisstjórnin hefur afskræmt aðild Íslands að svonefndu GATT-samkomulagi um frelsi í milliríkjaverzlun og aðild landsins að hinni nýju Alþjóðaviðskiptastofnun. Nokkrum sinnum í mánuði hverjum hefur komið í ljós, að hún svíkur neytendur um hagnaðinn af aðildinni.

Nú síðast hefur hún ákveðið að bjóða út tollfrelsiskvótann í GATT-samkomulaginu og afhenda þeim, sem eru tilbúnir að selja neytendum innfluttu vöruna á hæsta verðinu. Þar með ætlar hún að koma í veg fyrir, að þessi örsmái kvóti komi íslenzkum neytendum að gagni.

Í sumar hefur ríkisstjórnin verið að koma frá sér nokkrum reglugerðum, sem túlka GATT-samkomulagið eins og andskotinn túlkar biblíuna. Í öllum tilvikum er til hins ýtrasta sveigt af leið frelsis í milliríkjaviðskiptum og reynt að koma í veg fyrir hagsbætur neytenda.

Í mörgum tilvikum hefur ráðherrunum tekizt að hækka vöruverð til neytenda, svo sem mörg dæmi sanna. Í sumum tilvikum hafa þeir neyðst til að draga hækkanirnar að nokkru til baka, en það breytir ekki krumpuðu hugarfari, sem liggur að baki upphaflegu reglunum.

Sem dæmi um brenglað hugarfar ráðherra, sem fyrirlíta neytendur, er reglugerðin, sem hefði leitt til stórfelldrar hækkunar á jólatrjám landsmanna fyrir næstu jól, ef hún hefði náð fram að ganga. Ráðherrarnir hættu við hækkunina, en bíða áfram færis á öðrum sviðum.

Ráðherrarnir eru svo sokknir í fen stuðnings við innlendan landbúnað, að þeir eru að vinna að nýjum búvörusamningi, sem felur í sér sauðfjárræktarstuðning, er nemur meira en hálfum þriðja milljarði króna. Þeir sveifla milljörðunum um sig eins og verðlausir séu.

Stuðningur ríkisins við íslenzkan landbúnað í heild nemur þremur fjórðu hlutum af öllu verðmæti framleiðslunnar. Þetta er ekki stuðningur í hefðbundnum skilningi, heldur hrein forsenda framleiðslunnar. Allt líf þjóðarinnar snýst um að þræla fyrir þessu rugli.

Ekki er úr lausu lofti gripið, að stuðningurinn nemi þremur fjórðu hlutum verðmætisins. Það eru tölur frá Efnahagsframfarastofnuninni, sem ekki einu sinni íslenzka landbúnaðarráðuneytið hefur andmælt. Svo virðist, sem ráðherrarnir telji þetta hæfilegt ástand.

Ef ríkisvaldið hætti afskiptum af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi mundi Ísland verða að gósenlandi. Lífskjör þjóðarinnar mundu snarbatna, ef ekki væru hér innflutningshöft, framleiðslustyrkir og niðurgreiðslur. Við hefðum efni á að halda uppi skólum og sjúkrahúsum.

En ríkisstjórnin hefur valið og hafnað fyrir okkar hönd. Hún hefur tekið stuðning við landbúnað fram fyrir allar aðrar félagslegar, menntunarlegar og menningarlegar þarfir þjóðarinnar. Um leið hefur hún veðsett börnin okkar fyrir skuldasöfnun sinni í þágu landbúnaðar.

Og kjósendur eru harla kátir yfir þessu. Þeir eru ánægðir með ríkisstjórnina. Það hefur komið í ljós í skoðanakönnunum. Samt eru kjósendur allir neytendur og margir þeirra ekki ofhaldnir í lífskjörum. Það er því engin furða, þótt ráðherrar fyrirlíti kjósendur.

Meðan kjósendur halda áfram að haga sér eins og fávitar, er ekki von á, að við förum að minnka hinn vaxandi mun, sem er á lífskjörum okkar og nágrannaþjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV