Þeir gera vandann verri.

Greinar

Þegar stjórnmálamenn sjást ekki fyrir í baráttunni við verðbólguna, tregðast þeir við að fella gengi krónunnar. Gengislækkun flyzt nefnilega smám saman yfir í verðlagið og magnar verðbólguna, sem þeir vilja umfram allt forðast.

Af því að íslenzkir stjórnmálamenn eru nánast samfellt í stríði við verðbólguna, með hinum frábæra árangri, sem frægur er um allan heim, er gengi íslenzku krónunnar alltaf of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir seldur á útsöluverði.

Þegar þeim er bent á þetta, segja þeir, að það skipti engu máli, ekki einu sinni fyrir útflutningsatvinnuvegina, því að dæmið elti skottið á sjálfu sér. Gengislækkun leiði til verðbólgu, sem leiði til nýrrar gengislækkunar.

Þetta er þó ekki nema hálfur sannleikurinn. Innlendu verðhækkanirnar koma smám saman á þremur til tólf mánuðum. Á meðan hefur gefizt tækifæri til að lækka gengi krónunnar enn frekar. Sú gerð getur alltaf verið einu skrefi á undan.

Hvort sem verðbólga er engin, lítil eða mikil, er alltaf nauðsynlegt að gæta þess, að gengi krónunnar sé skráð við lægri mörk þess, sem raunhæft má teljast. Eða það, sem er enn betra, hreinlega að gefa gengið frjálst.

Lágt gengi gerir innflutta vöru og þjónustu dýrari en ella og bætir samkeppnisaðstöðu innlendrar vöru og þjónustu. Almenningur ver sig nefnilega gegn kjaraskerðingu gengislækkunarinnar með því að snúa viðskiptum sínum að hinni ódýrari innlendu framleiðslu.

Við lággengi má til dæmis búast við, að eldavélar, sem sumpart eru smíðaðar og alveg samsettar hér á landi, nái aukinni markaðshlutdeild á kostnað algerlega innfluttra eldavéla. Hið sama má segja um innlenda skipasmíði.

Við lággengi má einnig búast við, að ferðalög innanlands aukist á kostnað ferðalaga til útlanda. Þannig má rekja dæmin endalaust. Lággengið breytir markaðshlutdeildinni frá erlendri framleiðslu og þjónustu til innlendrar.

Þetta magnar innlendan iðnað og treystir atvinnu í landinu. Um leið eykur þetta tekjur ríkissjóðs af söluskatti, tekjuskatti og öðrum gjöldum, sem tengjast atvinnu og framleiðslu, en rýrir um leið tekjur útlendra ríkissjóða.

Ekki skiptir minna máli, að lággengi hlýtur að bæta verulega stöðu útflutningsatvinnuvega. Það á bæði að gera þá samkeppnishæfari í útlöndum og að bæta fjárhagslega afkomu þeirra. Þetta gildir bæði um sjávarvöru og iðnvarning.

Varanlegt lággengi leiðir vegna alls þessa til minnkunar og hvarfs viðskiptahalla gagnvart útlöndum og til minnkunar og hvarfs skuldasöfnunar í útlöndum. Hvort tveggja er skilyrði fyrir góðri afkomu barna okkar í framtíðinni.

Verðbólguhatur stjórnmálamanna hindrar ekki aðeins bráðnauðsynlegt lággengi krónunnar, heldur kemur líka í veg fyrir, að verðtrygging fjárskuldbindinga komist á leiðarenda, – að bankarnir fyllist af sparifé.

Stjórnmálamennirnir rembast eins og rjúpan við staurinn undir misvitrum hvatningarorðum efnahagssérfræðinga, sem sjá ekki heldur neitt annað en verðbólguna. Þess vegna er árangur beggja hafður í flimtingum um heim allan.

Stjórnmálamenn og efnahagssérfræðingar leysa engan vanda með því að stinga hitamæli efnahagslífsins inn í frysti. En þeir gera vandann verri með því að tregðast við að auka verðbólguna með réttu krónugengi og réttum vöxtum.

Jónas Kristjánsson

DV