Þeir geta “óskað eftir”

Greinar

Þegar utanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans héldu blaðamannafund til að monta sig af, að til greina kæmi fyrr eða síðar að stofna fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli, gættu þeir þess að gleyma því, að þeir hafa nýlega beinlínis lagt steina í götu þess.

Um síðustu áramót samdi utanríkisráðuneytið við Flugleiðir um framhald á einokun þess gæludýrs á afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Talsmaður Flugleiða var að vonum ánægður og sagði, að nýi samningurinn væri á svipuðum nótum og fyrri samningur.

Sjálfur samningurinn var þá leyniplagg, en aðstoðarmaður utanríkisráðherra var nógu forhertur til að kvarta yfir, að leiðarahöfundar kynntu sér ekki efni hans, áður en þeir gagnrýndu hann. Í vor höfðu nokkrir þingmenn svo fram, að plaggið var gert opinbert.

Þá kom í ljós, að maður ráðherrans hafði í skjóli leyndarinnar farið rangt með efni einokunarsamningsins. Ráðuneytið gat ekki einhliða sagt honum upp, heldur gat það beðið um endurskoðun, ef fríiðnaðarsvæði yrði stofnað, en Flugleiðir gátu hafnað endurskoðun.

Orðrétt segir: “Utanríkisráðuneytið getur óskað eftir, að samningsákvæði um afgreiðslu fragtvéla verði tekið til endurskoðunar, hvenær sem er á samningstímanum, ef ætla má, að umtalsverðar breytingar verði á fragtflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli að mati ráðuneytisins, m.a. í tengslum við iðnaðarsvæði.”

Þegar einokunin var framlengd, sagði DV í leiðurum, að afnám þessarar einokunar á afgreiðslu vöruflugs væri forsenda þess, að unnt væri að byggja upp útflutning á verðmætum fiskafurðum í flugi og að unnt væri að byggja upp fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

Lögmál viðskipta og efnahagslíf eru ekki þannig vaxin, að fyrst sé byggður upp útflutningur á verðmætum fiskafurðum og skipulagt fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli, heldur verður fyrst að skapa forsendurnar með því að leggja niður afgreiðslueinokunina.

Utanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans geta því ekki montað sig af að hafa undirbúið jarðveginn fyrir fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Þeir hafa þvert á móti lagt svo stóra steina í götu þess svæðis, að ekki verður hægt að vinna af alvöru í málinu í fjögur ár.

Þetta gerðu þeir félagar einmitt á þeim tíma, er þjóðin var að sigla í efnahagslega kreppu af völdum ofveiði á þorski. Þetta gerðu þeir, þegar brýnt var orðið að auka hlutfall á útflutningi ferskra og nýstárlegra sjávarafurða á háu verði til fjarlægra landa, svo sem Japans.

Vegna einokunarsamningsins getum við ekki heldur nýtt okkur legu landsins og aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu. Við getum engan veginn freistað japanskra og bandarískra fyrirtækja til að koma hér upp vinnslu- og dreifingarmiðstöðvum fyrir Evrópumarkað.

Einokunarsaga vöruafgreiðslu Keflavíkurflugvallar er samfelld harmsaga. Gæludýr ríkisins hefur misnotað aðstöðuna til að hrekja á brott hvert vöruflutningafélagið á fætur öðru: Flying Tigers, Pan American og Federal Express. Samt var einokunin framlengd í vetur.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki aðeins lagt þessa þungu steina í veg eðlilegrar atvinnuþróunar í landinu til að geðjast gæludýri ríkisins, heldur hefur það látið undir höfuð leggjast að undirbúa frumvörp að ramma að rekstrarumhverfi fyrirtækja á fríiðnaðarsvæði.

Utanríkisráðherra og aðstoðarmaðurinn hafa montað sig af máli, sem er þeim í rauninni til vansæmdar.

Jónas Kristjánsson

DV