Þeir hækka líka jólatrén

Greinar

Jólatré verða dýrari um næstu jól en þau hafa hingað til verið. Ríkisstjórnin notar svonefnt GATT-samkomulag um minnkuð innflutningshöft til að leggja sérstakt gjald á innflutt jólatré. Gjaldið leiðir til 40% verðhækkunar á hefðbundnum jólatrjám af venjulegri stærð.

Þetta er nýjasta dæmið af mörgum um, að ríkisstjórnin notar GATT-samkomulagið þveröfugt við yfirlýst markmið þess. Hún notar það til að koma á fót kerfisbundnum mismun á verði innlendra og innfluttra afurða, þegar hún neyðist til að heimila innflutning.

Örlítill hluti innfluttu trjánna verður þó á sérkvóta og sleppur við nýja gjaldið, alveg eins og í annarri búvöru. Enn er ekki ljóst, hvernig þessi gjaldfría búvara verður skömmtuð í hendur neytenda. Ljóst er þó, að ýmsir munu kunna við sig í hlutverki skömmtunarstjóra.

Athuganir hafa leitt í ljós, að grænmeti hefur í sumar verið umtalsvert dýrara en undanfarin sumur. Það stafar af nýju reglunum frá landbúnaðarráðuneytinu. Þær hafa verið notaðar til að hífa upp grænmetisverð, alveg eins og þær verða notaðar til að hækka verð á jólatrjám.

Hér á landi hefur GATT-samkomulagið þegar verið og mun enn frekar verða notað til að auka útgjöld neytenda í því skyni að bæta stöðu sérhagsmunahópa. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar stríðir gegn samkomulaginu og sýnir botnlausa fyrirlitningu á íslenzkum neytendum.

Neytendur eiga þessa fyrirlitningu skilið, af því að reynslan sýnir, að þeir láta flest yfir sig ganga möglunarlaust. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálamenn, sem eru yfirlýstir andstæðingar neytenda. Og þeir sýna yfirvaldinu því meiri hollustu, sem þeir eru meira barðir.

Undirstöður verðhækkana þessa árs voru reistar af fyrrverandi ríkisstjórn, sem seldi þáverandi landbúnaðarráðherra nánast sjálfdæmi um túlkun GATT-samkomulagsins á Íslandi. Hann beitti þessu sjálfdæmi til hins ýtrasta og sá nýi hefur bætt um betur.

Hefðbundið er, að ráðherra og embættismenn landbúnaðarmála á Íslandi starfi ekki með hagsmuni ríkis og þjóðar í huga, heldur séu framlengdur armur hagsmunasamtaka úti í bæ. Þetta hefur aukizt með árunum og náð hámarki í nýjustu reglugerðum ráðuneytisins.

Reynslan sýnir, að allir stjórnmálaflokkar landsins styðja þessa sérstöðu landbúnaðarmála í kerfinu. Þeir eru allir sammála því, að landbúnaðarráðuneytið ráði ferðinni, þegar árekstrar verða milli þess og annarra ráðuneyta, svo sem viðskipta- og umhverfisráðuneyta.

Til skamms tíma notaði pólitíska kerfið þessa bóndabeygju til að tefja fyrir og draga úr ávinningi neytenda af þróun vöruverðs og vörugæða í milliríkjaverzlun landbúnaðarafurða. Það er hins vegar nýtt, að hún sé notuð til að stíga skref aftur á bak til fortíðarinnar.

Þetta væri ekki framkvæmanlegt í öðrum ríkjum Vesturlanda. Þar mundu neytendur rísa upp til varna, ef ráðizt væri gegn hagsmunum þeirra á jafn purkunarlausan hátt og hér hefur verið gert á þessu ári. Erlendir neytendur mundu taka til varna á eftirminnilegan hátt.

Í nágrannalöndunum mundu samtök launafólks hafa forustu um að knýja stjórnvöld til að láta af ofsóknum í garð neytenda. Hér á landi eru forustumenn slíkra samtaka yfirleitt værukærir kontóristar, sem hafa reynzt alveg ófærir um að vernda lífskjör umbjóðenda sinna.

Ríkisstjórnin veit, að henni er óhætt að brjóta alþjóðasamninga til að taka sérhagsmuni fram yfir hagsmuni neytenda, sem ekki vilja bera hönd fyrir höfuð sér.

Jónas Kristjánsson

DV