Fulltrúar vesturlanda á stórfundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í eyðimörkinni í Katar á Arabíuskaga hafa ekkert lært af heimssögulegum atburðum haustsins. Þeir eru ákveðnir í að halda til streitu kröfum um aukna skekkju í heimsviðskiptum á kostnað fátækra þjóða heims.
Í stað þess að samþykkja orðalaust kröfur þriðja heimsins um innflutnings- og tollfrelsi landbúnaðarafurða og vefnaðarvöru, stinga vesturlönd enn við fótum og krefjast að auki herts eignarréttar á hugbúnaði og lyfjum og aukins svigrúms vestrænnar fjármálaþjónustu.
Viðskiptafrelsið í heiminum nær einkum til iðnaðarvara, sem vesturlönd framleiða, en ekki til landbúnaðarafurða og vefnaðarvöru, sem þriðji heimurinn framleiðir. Hin nýlega Heimsviðskiptastofnun hefur haldið áfram hinni eindregnu ójafnaðarstefnu forvera síns.
Vesturlönd hafa notað Heimsviðskiptastofnunina til að halda þriðja heiminum niðri og þriðji heimurinn veit það. Viðskiptafrelsi búvöru mundi eitt út af fyrir sig bæta kjör fátækra þjóða um 600 milljarða dollara á ári hverju. Fyrir þá upphæð eina má mennta allan þriðja heiminn.
Síðasti fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar var í Seattle fyrir tveimur árum og fór út um þúfur vegna ofsafenginna mótmælaaðgerða. Ekki er aðstaða til slíkra mótmæla í eyðimörk olíufurstanna, en eigi að síður mun fara út um þúfur fundurinn, sem nú stendur yfir.
Eins og venjulega er talað tungum tveimur í Katar. Í ræðupúltum fjalla fulltrúar vesturlanda fjálglega um gildi markaðsafla og mikilvægi frelsis, en á baktjaldafundum makka þeir gegn því, að þessi hugtök nái til einu afurðanna, sem þriðji heimurinn framleiðir ódýrt.
Vesturlönd styrkja landbúnað sinn um einn milljarð dollara á dag, sexfalt hærri upphæð en samanlögð aðstoð þeirra við þróunarríkin. Dálæti vesturlanda á eigin landbúnaði hindrar samkomulag í Katar um aukið viðskiptafrelsi í heiminum, alveg eins og í Seattle.
Afleiðingar vestræns hroka eru alvarlegar. Hann sáir eitri í huga fólks, hatri á vesturlöndum. Stórkarlalegast kemur það í ljós í heimi Íslams, þar sem hatrið brýzt út í hugarfari hryðjuverka, þar sem þúsundir manna bætast á hverju ári við sjálfsmorðssveitir framtíðarinnar.
Mikilvægur þáttur í aðgerðum vesturlanda til að efla öryggi borgaranna á viðsjárverðum tímum hryðjuverka er að skrúfa fyrir vestrænan hroka, sem framleiðir hatur í þriðja heiminum, sem framleiðir hryðjuverk gegn vestrænum hagsmunum og vestrænum mannslífum.
Þess vegna hefði 11. september átt að vera alvarleg áminning til vesturlanda um að gefa þriðja heiminum frelsi á fundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í Katar. Þetta tækifæri hefur ekki verið notað. Þvert á móti hafa vesturlönd ákveðið að læra ekkert af reynslunni.
Höfuðrit hrokans í heiminum, Wall Street Journal, hrósaði meira að segja happi yfir því, að mótmælendur gætu ekki truflað fundinn í Katar, af því að þeim yrði þá miskunnarlaust líkt við hryðjuverkamenn. Wall Street Journal skilur alls ekki hvaða alvara er á ferðinni.
Ekki gengur upp sú veröld, þar sem ríkar þjóðir fela sig að baki tollmúra og arðræna fátækar þjóðir, ekki frekar en það þjóðfélag, þar sem ríka fólkið felur sig í lokuðum íbúðahverfum og arðrænir fátæklinga. Í báðum tilvikum verður bylting fyrr eða síðar, nema menn vakni.
Í Katar munu vesturlönd og Heimsviðskiptastofnunin neita að fallast á frjálsa verzlun afurða þriðja heimsins og missa af einstæðu tækifæri til að læra af reynslunni.
Jónas Kristjánsson
DV