Þeir hlusta ekki

Greinar

Nautakjöt hefur verið á hröðu undanhaldi, meðal annars vegna þess að hamborgarar hafa vikið fyrir pitsum aðallega og einnig pöstum sem vinsælasta skyndifæði ungs nútímafólks á Íslandi. Það sést bezt af margföldun pitsustaða á höfuðborgarsvæðinu á sárafáum árum.

Nautakjöt er ekki nauðsynlegur þáttur í pitsum og pöstum og er lítill þáttur, þegar það er notað. Hamborgarar hins vegar byggjast að mestu leyti á kjöti. Þegar tilfærsla verður í neyzluvenjum úr kjötríkum réttum í kjötlitla eða kjötlausa, minnkar heildarsala nautakjöts.

Nautakjöt hefur ekki verið mikilvægur þáttur í sparimatreiðslu og frístundamatreiðslu Íslendinga. Fólk grillar að vísu, en þá yfirleitt lambakjöt, sem er ekki eins viðkvæmt fyrir eldun og nautakjötið er. Nautakjötið hefur heldur ekki þótt nógu gott, til dæmis of seigt.

Þetta er ólíkt ástandinu í ýmsum nálægum löndum, þar sem nautakjöt þykir víða girnilegasta kjötið og er til dæmis ókrýndur konungur í grillveizlum. Þetta ætti að vera athugunarefni öllum þeim, sem hafa tekjur eða vilja hafa tekjur af nautakjötsframleiðslu hér á landi.

Fólk notar lítið af nautakjöti af því að það er of dýrt og of áhættusamt að kaupa það. Flestir skrokkar eru magrir og seigir, auk þess sem þeir eru af meira eða minna blönduðu kyni. Bragðlítið og seigt Galloway hefur blandazt inn í gamla, bragðmikla, íslenzka nautakynið.

Jafnvel í beztu verzlunum er ekki auðvelt að fá að velja milli feitra gripa og magurra, íslenzkra og Galloway. Þeir, sem þekkja gott nautakjöt frá útlöndum, verða að fara krókaleiðir til að ná í gott nautakjöt hér á landi. Margir nenna því ekki og snúa sér að öðrum matvælum.

Þetta vandræðaástand er eindregið stutt af stirðnuðu valdakerfi landbúnaðarins. Ólseigir sultarskrokkar fara í fyrsta verðflokk, en innanfeitt og meyrt kjöt fellur niður í annan flokk. Þetta stafar af, að bændastjórar hafa aldrei viljað hlusta á neytendur og vilja það ekki enn.

Nú á að gera illt verra með því að skylda nautakjötsbændur til að láta þriðja hvern skrokk af hendi til frystingar. Það er gert til að draga úr framboði á líðandi stund og ná fram hærra verði. Neytendur munu mæta hækkuninni með því að draga enn frekar úr neyzlu nautakjöts.

Nautakjöt versnar mjög við frystingu. Það er því vandséð, hvað eigi að gera við nautakjötið, sem mun hlaðast upp í frystigeymslum samvinnufélaga á sama hátt og lambakjötið. Í valdakerfi landbúnaðarins rækta menn drauma um að selja það til útlanda sem hollustuvöru.

Bændastjórar eru fangar eigin áróðurs um, að útlendingar lifi á hormónakjöti. Þeir eru farnir að trúa honum sjálfir og skipuleggja útflutning í samræmi við hann. Er þó fyrir töluvert framboð erlendis af kjöti, sem er framleitt út frá margbreytilegum sjónarmiðum um hollustu.

Reynsla annarra sýnir, að enginn vinnur sigur á alþjóðamarkaði fyrr en hann hefur unnið sigur á heimamarkaði. Nautakjötsframleiðendur þurfa fyrst að vinna sinn heimamarkað, áður en þeir leggja til atlögu við alþjóðamarkað. Þeir þurfa að byrja að hlusta á neytendur.

Til eru íslenzkir nautabændur, sem hlusta á markaðinn, og framleiða mjög gott nautakjöt af gamla, íslenzka nautakyninu, feitt, meyrt og bragðmikið. Til eru kjötverkendur, sem sækjast eftir þessu kjöti. Og til eru veitingahús, sem byggja vinsældir sínar á þessu sama kjöti.

Bændastjórar ættu að byrja að hlusta á þessa aðila áður en þeir gera enn eina atlöguna að neytendum í landinu, einmitt þeim sem ættu að vera viðskiptavinir.

Jónas Kristjánsson

DV