Þeir hóta okkur.

Greinar

Til marks um aukna ofbeldishneigð Kremlverja í samskiptum þjóða eru nýjustu hótanir þeirra um beitingu kjarnorkuvopna gegn Dönum, Norðmönnum og Íslendingum. Þær birtust í Rauðu stjörnunni, málgagni hersins.

Dönum, Norðmönnum og Íslendingum má vera ljóst, að Andropov og félagar eru ekki að minna okkur á að hindra Atlantshafsbandalagið í að gera Norðurlönd að skotpalli árásar á Sovétríkin, þótt þeir hafi það að yfirvarpi.

Arftakar Brezhnevs og herforingjar þeirra vita vel, að hvorki Atlantshafshandalagið né Norðurlönd ráðgera hernaðarlegt ofbeldi gegn Sovétríkjunum. Hins vegar langar Kremlverja að víkka valdsvið sitt, með eða án ofbeldis.

Einn þáttur í vaxandi ágengni sovézkra hernaðarsinna eru ferðir kjarnorkukafbáta í landhelgi norrænna ríkja. Þær hafa gengið svo langt, að einn báturinn strandaði uppi í fjöru langt inni í firði í Svíþjóð.

Þessi sérstæða frekja hefur leitt til hugleiðinga innan og utan Svíþjóðar um, að tímabært sé fyrir Svía að endurskoða stöðu sína í heiminum, áður en þeir eru nauðugir farnir að sitja og standa eins og Andropov þóknast.

Hlutleysi Svía var á sínum tíma reist á grundvelli töluverðs varnarmáttar þeirra. Nú er hins vegar svo komið, að útþenslumenn austursins hafa þennan mátt í flimtingum og athafna sig eftir þörfum í sænskum fjörðum.

Hótun Rauða hersins er meðal annars ætlað að vara Svía við að láta hugleiðingar um endurmat ganga svo langt, að þeir taki upp samstarf við Atlantshafsbandalagið. Þá verði þeir sprengdir eins og Danir, Norðmenn og Íslendingar.

Um leið er hótunum þessum ætlað að styðja við bak fimmtu herdeildanna í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Þessar deildir eru skipaðar nytsömum sakleysingjum, sem halda, að þeir stuðli að friði með þáttöku í ýmsum hreyfingum.

Ein skæðasta “friðar”-plágan er hugmyndin um samkomulag um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hún byggist á þeirri firru, að mark sé takandi á undirskriftum Kremlverja undir alþjóðlega eða fjölþjóðlega samninga.

Sönnu er nær, að slíkar undirskriftir eru fremur vísbending um, að Andropov og félagar hugsi sér til hreyfings í hina áttina. Mannréttindabrot þeirra hafa til dæmis stóraukizt eftir undirritun Helsinki-sáttmálans.

Kjarnorkuvopnalaus lönd á borð við Norðurlönd þurfa engar yfirlýsingar Kremlverja um kjarnorkuvopnalaus svæði, ekki fremur en gagn er að hliðstæðum yfirlýsingum um, að þeir verði ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum.

Yfirlýsingar af þessu tagi eru verri en marklausar. Til dæmis er dómur reynslunnar, að “ekki-árásarsamningur” er af hálfu slíkra stjórnvalda talinn eðlilegur aðdragandi árásar, – hluti af vinnubrögðum þeirra.

Á sama tíma og Andropov var að skipuleggja geðveikrahælin fyrir leyniþjónustuna lærði hann að fullkomna utanríkisstefnuna, sem felst í útþenslu með góðu og illu til skiptis. Nú hentar honum að byrja að hóta okkur.

Til þess að varðveita friðinn er okkur affarasælast að standa þétt saman í vörninni og láta “friðar”-hreyfingum ekki takast að rjúfa nein þau skörð í múrinn, sem Kremlverjar eru að blekkja þær til að reyna að gera.

Jónas Kristjánsson.

DV