Þeir klúðra vaxtaskatti

Greinar

Aðalröksemd stjórnvalda með fyrirhuguðum vaxtaskatti er, að hann feli í sér samræmingu og réttlæti. Hvort tveggja er rétt. Eðlilegt er, að hvers konar tekjur séu skattlagðar á sama hátt. Óeðlilegt er, að tekjum af fjármagni sé gert hærra undir höfði en tekjum af vinnu.

En þetta er bara hluti af öllu dæminu. Það er meira en að segja það að leggja vaxtaskatt á tekjur af fjármagni. Ýmsar spurningar vakna, sem erfitt er að svara á fullnægjandi hátt. Og víst er, að óbeinar afleiðingar vaxtaskatts geta verið aðrar en til er stofnað.

Ef talað er um réttlæti og samræmi, er nauðsynlegt að benda á, að sú röksemdafærsla leiðir til, að eðlilegt sé að skattleggja vexti af ríkisskuldabréfum á sama hátt og aðra vexti. Ráðagerðir fjármálaráðuneytisins um annað fela í sér “ósamræmi” og “óréttlæti”.

Undanþága ríkisskuldabréfa frá vaxtaskatti er tilraun stjórnvalda til að nota aðstöðu sína til að ná í aukinn hlut sparifjár á kostnað annarra sparnaðarforma. Sá tilgangur helgar meðal ráðherranna, en sýnir um leið, hversu marklaust er að tala um samræmi og réttlæti.

Ráðgert er að gera greinarmun á gervivöxtum og raunvöxtum og skattleggja aðeins raunvextina. Það er rétt ákvörðun, sem sýnir, að hugtakið raunvextir hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Viðurkennt er, að sumir vextir fela í rauninni ekki í sér neinar tekjur.

Þetta minnir jafnframt á, að samræmi og réttlæti næst því aðeins, að sparifjárfólk fái sér reiknaðan tekjufrádrátt af mismuni á neikvæðum vöxtum og raunvöxtum. Enn er mikill hluti vaxta svo lágur, að hann nær ekki raunvöxtum og felur í sér rýrnun höfuðstóls.

Þetta gleymdist í ráðagerðum stjórnvalda um vaxtaskatt. Ef Alþingi fellst í haust á skattinn, er mikilvægt, að það setji í lögin skýr ákvæði um tekjufrádrátt vegna neikvæðra raunvaxta, um leið og það bætir við “réttlátu” ákvæði um skattlagningu ríkisskuldabréfa.

Þótt þessara hliðaratriða verði gætt, er samt sérkennilegur tíminn, sem valinn er til skattlagningarinnar. Ekkert nýtt sparifé hefur komið í bankana í tvö ár, af því að sparnaður þykir ekki fýsilegur kostur á þessum tímum, jafnvel þótt vextir séu ekki skattlagðir.

Margir munu taka út sparifé sitt og eyða því handa sjálfum sér og sínum, þegar vextirnir verða skattlagðir. Til að koma í veg fyrir hrun þjóðfélagsins af þessum völdum mun ríkisstjórnin neyðast til að sætta sig við, að raunvextir hækki sem svarar skattlagningunni.

Við lifum í þjóðfélagi, sem þarf mjög á sparnaði að halda, svo að byggja megi upp þjóðfélagið á innlendum peningum. Erlent lánsfé hefur verið ofnotað svo lengi, að skuldabyrðin gagnvart útlöndum er að verða óbærileg. Vaxtaskattur er að því leyti óheppilegur.

Ef ríkisstjórn og Alþingi tekst að viðurkenna áhrif vaxtaskattsins á upphæð raunvaxta, má ef til vill komast hjá miklum flótta peninga úr bönkum og öðrum lánastofnunum. En núverandi ríkisstjórn er því miður ekki líkleg til að skilja þetta frekar en margt annað.

Raunvextir eru þessa dagana tiltölulega lágir hér á landi í samanburði við nágrannaþjóðirnar, sem þó eru ekki eins háðar innlendum sparnaði og við erum. Þessir lágu raunvextir halda sparnaði niðri. Þeir sýna um leið, hversu illa ráðherrum gengur að sjá veruleikann.

Þótt vaxtatekjuskattur sé í sjálfu sér réttlátur, þarf margs að gæta, svo að ekki hljótist af stórslys. Núverandi ríkisstjórn er ófær um að gæta öryggis í málinu.

Jónas Kristjánsson

DV