Þeir láta reka á hafi fortíðar

Greinar

Um þessar mundir fer saman óvenjulega mikill fjöldi stórmála, sem bíður pólitískrar afgreiðslu, og óvenjulega lítill áhugi meðal almennings á stjórnmálum. Þess vegna komast fulltrúar okkar í þjóðmálunum hjá því að skera á hnútinn í þeim málum, sem mestu skipta.

Sex mál ber einna hæst í þessum flokki stórmála. Það eru framtíð stóriðju, eignarréttur útgerðarfélaga á auðlindum sjávar, aðild landsins að Evrópu, rekstur landbúnaðar sem velferðarkerfis, bandvídd og -öryggi í tölvuviðskiptum og staða ríkisbúskaparins í góðæri.

Ríkisstjórnin leggur meiri áherzlu á stóriðju en aðrar atvinnugreinar, þótt hún hafi lítil margfeldisáhrif í fullvinnslu afurða sinna og veiti fremur litla atvinnu, þegar búið er að reisa hana. Ekki er enn byrjað að meta til fjár mengunarþátt hvers stóriðjuvers.

Ríkisstjórnin vill, að útgerðarfélög fái áfram að kaupa og selja auðlindir hafsins eins og þau eigi þær, þótt ríkisvaldið telji sig eiga þær og hafi framleitt verðmæti þeirra með því að skammta aðgang að þeim. Kvótakaup eru núna ekki léttari byrði en uppboð kvóta yrðu.

Ríkisstjórnin heldur fast við, að ekki sé til umræðu, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð. Samt er starfsfólk ráðuneytanna önnum kafið við að þýða og gefa út evrópskar reglugerðir. Þetta er aðild að öllu nema ákvörðunum sambandsins.

Ríkisstjórnin heldur óbreyttri stefnu í landbúnaði, sem felur í sér, að greinin er ekki talin atvinnuvegur heldur hluti velferðarkerfisins. Á skömmum tíma hefur verið sóað meira en milljarði króna í vonlausar tilraunir til að selja óseljanlegar búvörur til útlanda.

Ríkisstjórnin hefur hamlað eðlilegum vexti tölvuiðnaðar og tölvuviðskipta með því að sjá ekki um, að bandvídd og -öryggi í tölvuviðskiptum milli landa þyldi álagið á hverjum tíma. Af þessum völdum hafa tölvufyrirtæki orðið að flytja hluta rekstrarins til útlanda.

Ríkisstjórn hefur ekki fundið nýtt jafnvægi milli greiðslugetu sameiginlegra sjóða annars vegar og meintra sameiginlegra þarfa hins vegar. Til dæmis er með harmkvælum verið að reyna að reka skóla og sjúkrahús á forsendum, sem ekki standast aðstæður.

Ekkert er hægt að fullyrða um, hvort núverandi stjórnarandstaða hefði tekið eða mundi taka betur á þessum stórmálum. Því miður bendir fátt til að neitt ofangreindra mála væri í betri stöðu, ef stjórnarmynstur hefði verið með öðrum hætti á kjörtímabilinu.

Sameiginlegt einkenni á meðferð ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar er, að látið er reka á hafi fortíðar. Reynt er að varðveita hið liðna og fresta því að láta breyttar aðstæður knýja sig til að taka nýjar ákvarðanir.

Þjóðin gerir sig í stórum dráttum ánægða með þetta. Í skoðanakönnunum mælist traustur stuðningur við burðarflokk ríkisstjórnarinnar. Í einstökum málum hefur fólk nútímalegri skoðanir, en það sættir sig við, að slíks sjái ekki stað í verkum ríkisstjórnarinnar.

Þetta dúnalogn fyrir storminn er þekkt fyrirbæri í alþjóðlegri sagnfræði. Það minnir á hamingjuár Evrópu rétt fyrir og rétt eftir síðustu aldamót, þegar mönnum fannst, að góðærið mundi endast að eilífu og áttuðu sig ekki á óveðursskýjum úti við sjóndeildarhring.

Við höfum séð eitthvað þessu líkt í fjármálum Suðaustur-Asíu að undanförnu. Þannig fer fyrir mönnum og þjóðum, sem of lengi láta reka á hafi fortíðar.

Jónas Kristjánsson

DV