Þeir, sem menga, eiga að borga mengunargjald. Það er sjálfsagt og einfalt. Samt setti Alþingi í vor lög um, að mengunarfyrirtæki þurfi ekki að borga fyrir mengun. Þetta er hluti af þrælslund og þjónustu við stóriðju. Mengun er alvarlegt mál, hún er mælanleg og réttur til hennar gengur kaupum og sölum erlendis. Þess vegna er vitað um verðgildið. Markaður losunarheimilda verður stærsti markaður heims eftir nokkur ár. Með því að gefa heimildirnar eru landsfeðurnir að gera sömu mistök og þeir gerðu með kvótakerfinu. Þá gáfu þessir gæzlumenn sérhagsmuna gæludýrum sínum aflaheimildir á fiski.