Þeir pynda börn

Greinar

Ellefu ára barn var haft í hinni hræðilegu 1B deild í Abu Gharib pyndingastöð Bandaríkjanna í Bagdað í Írak. Hann sagðist vilja fara heim til mömmu að sögn sjónarvottar. Þrettán ára gamall Mohammed Ismail Agha var hafður í einangrun í Guantanamo í meira en ár og var neitað um svefn.

Sannanir hlaðast upp um ógeðslegt ofbeldi Bandaríkjamanna í garð útlendra barna. Komið hefur í ljós, að 800-900 drengir frá Pakistan, 13-15 ára gamlir, voru hafðir í haldi eftir innrás Bandaríkjanna í Afganistan. Hvar sem bandaríski herinn kemur, stráir hann um sig ofbeldi og pyndingum.

Alþjóðasamtök eru farin að safna skýrslum um þetta og einstök nöfn eru farin að koma í ljós. Við eigum mynd af Omar Khadr, sem var 15 ára, þegar hann var settur í hálft þriðja ár í geymslu í Guantanamo og fékk aldrei að tala við ættingja sína, lögfræðing eða fulltrúa frá Rauða krossinum.

Juda Hafez Ahmad var lítil stúlka í Abu Gharib, sem sagði Amnesty, að verðirnir hefðu leyft hundi að bíta í lærið á 14 ára dreng. Vitnaleiðslur hafa leitt í ljós, að ein bezta skemmtun fangavarðanna var að siga óðum hundum á börn. Þetta eru bara einstök dæmi um bandarískt stjórnkerfi mannhaturs.

Bandaríkin gengu af göflunum sem ríki og þjóð eftir 11. september 2001. Þjóðin varð ofsareið, heimtaði hefnd og var sama, hvar hún kom niður. Fyrst var ráðizt á Afganistan og síðan á Írak, sem ekkert hafði með árásina að gera, né neinar aðrar tilraunir til hryðjuverka á Vesturlöndum.

Engin furða er, að Bandaríkin neita að virða alþjóðlega sáttmála um meðferð stríðsfanga. Engin furða er, að Bandaríkin eru ásamt Sómalíu eina ríkið í heiminum, sem ekki er aðili að sáttmálanum um öryggi barna. Bandaríkin eru nefnilega brjálað heimsveldi, sem vill leika lausum hala.

Ekki verður þess vart, að íslenzkir fjölmiðlar hafi meiri áhuga en bandarískir á naflaskoðun um mál af þessu tagi. Þeim mun meiri áhuga hafa íslenzkir fjölmiðlungar á að fordæma frávik frá þeirri reglu, að oft megi satt kyrrt liggja. Hér vilja þeir liggja í vanþekkingu á tilverunni.

Verst er, að við sem fullvalda þjóð látum okkur í léttu rúmi liggja að hafa her frá brjáluðu heimsveldi og taka óbeinan þátt í ofbeldisverkum þess í Afganistan og Írak.

DV