Þeir skilja ekki.

Greinar

Stundum eiga stjórnmálamenn erfitt með að skilja, hvers vegna þeir verða viðskila við fólkið. Þeir halda, að alþingi sé nafli alheimsins og flokkssamþykktir hinn endanlegi sannleikur.

Þeir taka sjálfa sig hátíðlega og líta á kjósendur sem atkvæði til valdabrúks. Þeir loka sig inni í eigin hugarheimi og týna sjálfum sér í innbyrðis karpi um orð og tölur.

Pólitískar skylmingar, orðaskak og smásmugulegt þref á vettvangi stjórnmálanna á sjaldnast mikið erindi til almennings, enda fara slíkar deilur oftast fyrir ofan garð og neðan.

Allt hefur þetta orðið til þess, að fólkið fjarlægist pólitíkina og hefur takmarkað álit á flokksnefnunum. Það er engin tilviljun, að risið hafa upp hreyfingar utan við alla stjórnmálaflokka, þá sjaldan almenningi verður heitt í hamsi.

Þannig varð til jafnréttishreyfing kvenna, þannig var friðarhreyfingu hrundið af stað, borgarasamtökum skattgreiðenda og nú síðast hagsmunasamtökum húsbyggjenda og húskaupenda.

Allar þessar hreyfingar hafa fundið sér farveg framhjá hinum hefðbundnu pólitísku samtökum af þeirri einföldu ástæðu, að þáttakendur þeirra telja vonlaust, að nokkur flokkur geti eða vilji leiða slík mál fram til sigurs.

Flokkarnir hafa svosem flaggað fögrum fyrirheitum og fallegum flokkssamþykktum um allt milli himins og jarðar, en því miður hefur reynslan sýnt, að orð og efndir eru sitthvað. Kosningaloforðin eru fljót að gleymast, þegar atkvæðin hafa verið talin.

Tökum dæmi: Sjálfstæðisflokkurinn gerði það að einu höfuðmáli sínu í kosningabaráttunni í vor, að tekjuskattar skyldu lækkaðir á almennum launatekjum. Í orði kveðnu var því haldið fram, að ríkisstjórnin hefði samið um þetta.

Menn hafa beðið spenntir eftir efndunum. En viti menn. Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Ráðherrarnir kvarta og kveina undan slæmri stöðu ríkissjóðs.

Skyndilega hafa þeir uppgötvað, að ekkert svigrúm verður fyrir skattalækkanirnar marglofuðu. Þær verða að bíða betri tíma, segja þeir og stynja þungan undan ábyrgðinni. Já, hvers virði er eitt stykki kosningaloforð, þegar sjálfur ríkiskassinn er annars vegar?

Þetta er gömul saga og ný. Þeim snýst hugur, blessuðum stjórnmálamönnunum, þegar á hólminn er komið. Aðalatriðið er að blekkja kjósendur með fögrum loforðum fyrir kosningar, í þeirri von, að atkvæðin fleyti frambjóðendum til æðstu metorða.

Þá tekur alvaran við, að þeirra mati. Þá mega loforðin sín lítils frammi fyrir sjálfri alvörunni. Sjálfstæðisflokkurinn er hvorki betri né verri en aðrir í þessum loddaraleik. Það vill bara svo til, að skattalækkunarloforðið var óvenju hástemmt í síðustu kosningabaráttu og fólk hefur ekki enn gleymt því.

Ekki þarf almenningi að koma svo mjög á óvart þótt enn eitt loforðið verði svikið. Sjálfsagt kippir sér enginn upp við væntanlegan hringsnúning. Hann er ekki nýr af nálinni. Hann er meira að segja það sem fólk gerir ráð fyrir.

Í því liggur einmitt skýringin á máttleysi stjórnmálaflokkanna. Fólk hefur glatað trausti sínu á þeim. Það veit sem er, að stjórnmálamennirnir renna á rassinn, kokgleypa fullyrðingar og hafa lítið sem ekkert þrek til að standa við gefin loforð og háleitar hugsjónir.

Þegar fólkið vill sjá hagsmunum sínum borgið, grípur það til eigin ráða og stofnar sín eigin samtök. En flokkarnir skilja ekki.

Jónas Kristjánsson.

DV