Þeir spara ekki.

Greinar

Með fjárlagafrumvarpi ársins 1986 hefur ríkisstjórninni ekki tekizt að halda útgjöldum sínum í skefjum. Samkvæmt þeirri útgáfu, sem samkomulag er að takast um, verður hlutdeild ríkisins í þjóðarbúinu óbreytt frá þessu ári eða 28%. Það er útþensla frá í fyrra, þegar hlutdeildin var 26,5%.

Þetta minnkar líkur á, að ríkisstjórnin geti í lok kjörtímabilsins hrósað sér af umtalsverðum sparnaði í ríkisrekstrinum. Það var eitt af mikilvægustu markmiðum hennar og auk þess sérstaklega nauðsynlegt á tímum stöðnunar og samdráttar í þjóðarbúinu.

Að vísu hefur hingað til ekki verið nógu mikið að marka slíkan samanburð, því að fjárlög hafa ekki verið lokað dæmi. Hinir lausu endar þeirra hafa verið afgreiddir í lánsfjárlögum og aukafjárveitingum. Með nýja fjárlagafrumvarpinu verður á þessu mikilvæg endurbót.

Frumvarpið er í auknu samræmi við skilgreiningu og staðal Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Til dæmis flytjast upphæðir almannatrygginga yfir í aðalhluta fjárlaga. Mestu máli skiptir þó, að lánsfjáráætlunin verður hluti af fjárlagafrumvarpinu. Þar með verður erfiðara að blekkja með fjárlögum í framtíðinni.

Að flestu öðru leyti veldur fjárlagafrumvarpið vonbrigðum. Aðeins sum mikilvæg loforð verða efnd að verulegu leyti. Tekjuskattur verður lækkaður um 400 milljónir í stað hinna 600, sem ráðgerðar voru. Það má út af fyrir sig telja fullnægjandi árangur við erfiðar aðstæður.

Taka verður með fyrirvara fullyrðingu ráðherranna um, að frumvarpið feli ekki í sér aukningu skulda í útlöndum. Þegar hefur komið fram, að nýju landbúnaðarlögin og túlkun landbúnaðarráðherra á þeim munu kosta 575 milljón króna erlend lán á næsta ári.

Hrikaleg er sú ráðagerð að hækka óbeina skatta um tæpa tvo milljarða króna. Að vísu væri sanngjarnt og eðlilegt að stefna að einföldun söluskattsins með því að hafa hann á öllum vörum. Það mundi draga stórlega úr möguleikum á svikum á söluskatti og draga úr skattheimtuþörf ríkisins.

Útilokað er að láta slíka einföldun koma fram sem aukningu á matarútgjöldum fólks, án þess að jafngild lækkun söluskattsprósentunnar komi á móti, svo að heildarútgjöld fólks haldist óbreytt. Prósentan er þegar orðin of há og hvetur grimmilega til skattsvika.

Ráðgerð herferð skattrannsóknastjóra um næstu mánaðamót er ágæt tilraun til að draga úr söluskattsvikum. Að vísu verður að draga í efa, að árangurinn verði sá, sem gefið hefur verið í skyn. En herferðin er alténd auglýsing um alvöru stjórnvalda á þessu frekar vanrækta sviði.

Verst við frumvarpið er, að eyðsluráðherrarnir komast upp með meira eða minna óhefta útgjaldastefnu. Þannig er gert ráð fyrir, að útgjöld til vega hækki úr rúmlega hálfum öðrum milljarði króna í heila tvo. Þar hefði verið hægt að spara nokkur hundruð milljóna og fresta framkvæmdum til betri tíma.

Engin tilraun hefur verið gerð til að draga úr fjárhagsábyrgð ríkisins á hinum hefðbundna landbúnaði. Niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og ýmsir beinir styrkir til þessa ómaga á þjóðarbúinu eiga að nema um 7% af öllum útgjöldum ríkisins. Sá hluti einn er stærri en samanlagður fjárhagsvandi ríkissjóðs.

Jónas Kristjánsson

DV