Þeir trúðu ekki.

Greinar

Ein er veigamesta orsök þess, að Ísland beið ósigur fyrir Noregi í Jan Mayen deilunni. Hún er sú, að stjórnmálamenn okkar trúðu ekki á málstaðinn. Þeir töldu sig vera að semja um norskar eftirgjafir við norska eyju.

Íslenzku samningamennirnir áttu auðvitað að vefengja eignarhald Noregs á Jan Mayen. Sú var hin eina samningsstaða, sem gat veitt Íslendingum annað og meira en ruður af norsku borði. Í skák dugir ekki að geyma drottninguna uppi í borði.

Jafnvel þeir stjórnmálamenn, sem á endanum stóðu einir gegn uppgjöfinni, lögðu aldrei neina áherzlu á vefengingu norsks eignahalds. Þess vegna er holur hljómur í mótmælum Alþýðubandalagsins þessa dagana.

Margt fylgir í kjölfarið, ef menn gefa sér sem hornstein, að Noregur eigi Jan Mayen. Þá fara menn að líta á öll frávik frá þeim hornsteini sem sigur fyrir Ísland. Þá sætta menn sig við ruðurnar, svo sem nú hefur gerzt.

Þeir fagna 85% loðnuaflans og valdi til ákvörðunar heildaraflans. Þeir fagna “sanngjörnum” hluta annars afla. Þeir fagna skipun sáttanefndar um landgrunnið, frestun norskrar efnahagslögsögu og óformlegu fráhvarfi frá miðlínusjónarmiði.

Í þremur atrennum viðræðna vantaði jafnan hrygginn og broddinn í röksemdafærslu hinna íslenzku samningamanna. Enda brotnuðu þeir í öll skiptin, er Norðmenn létu til skarar skríða með skyndisóknum og hótunum.

Niðurstaðan er líka hryggileg. Ruðurnar eru ómerkilegar. Norðmenn, sem nú veiða 14% loðnustofnsins, geta hækkað hlut sinn með samningum við Efnahagsbandalagið. Fyrir aðeins þremur árum höfðu Íslendingar einir alla loðnuna.

Norðmenn geta neitað íslenzkum ákvörðunum um hámarksafla úr loðnustofninum með því að lýsa þær “ósanngjarnar”. Þeir ákveða svo “sanngjarnan” hluta Íslendinga úr öðrum stofnum í norskri fiskveiðilögsögu við Jan Mayen.

Norðmenn geta neitað tillögum sáttanefndar um skiptingu landgrunns, auk þess sem samningurinn talar um skiptingu þess milli Íslands og Jan Mayen. Þar með er hrunin kenningin um, að Jan Mayen sé ey án efnahags á landgrunni Íslands.

Norðmenn geta sett sér efnahagslögsögu við Jan Mayen að rúmu hálfu ári liðnu, 1. janúar 1981. Og þeir geta haldið áfram lögfræðilegu þrasi um, að þeir hafi ekki formlega viðurkennt íslenzkar 200 mílur í átt til Jan Mayen.

Niðurstaðan er sú, að Norðmenn hafa eignazt fiskveiðilögsögu við Jan Mayen, svo og hafsbotninn að verulegu leyti, að minnsta kosti við Jan Mayen og norður af eynni. Í staðinn fáum við svo ýmislegt smælki, sem meta má til 10% málsins.

Að þessari uppgjöf standa Framsóknarflokkurinn, auðvitað Alþýðuflokkurinn og því miður báðir hlutar Sjálfstæðisflokksins. Sárast var, að tiltölulega skeleggir sjálfstæðismenn kusu að beygja sig fyrir formanni sínum.

Annað eins og þetta gerist því aðeins, að menn byggja vígstöðuna á því, sem túlka má sem kröfugerð í eign annarra, í stað þess að vefengja eignarhald hins. Þetta hafa margir sagt oft, en ekki náð eyrum íslenzkra stjórnmálamanna.

Í vetur hefur oft verið rætt um endurtekna bilun íslenzkra stjórnmálamanna í Jan Mayen deilunni. Sú bilun stafar að töluverðu leyti af því, að þeir neituðu sér um skýran og kláran hornstein að standa á – málstað að trúa á.

Þannig töpuðum við Jan Mayen málinu að lokum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið