Heilbrigðisráðuneytið stendur í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um stofnun lyfjaverksmiðju suður á Möltu og virðist stolt af því. Ráðuneytið lifir enn í gæludýraheimi, þar sem allt framtak, er máli skiptir, liggur um sali fullmektugra ráðuneytismanna.
Steininn tekur úr, þegar ráðuneyti, sem ekki getur rekið veikindageirann á Íslandi, hyggst styðja framtak í þriðja heiminum. Hagfræði nútímans hefur brenglazt verulega á leiðinni inn á Hlemmtorg, því að ríkisafskipti af atvinnulífi eru nú til dags yfirleitt talin til ills.
Hér á landi hefur markaðsbúskapurinn löngum verið brenglaður á þann hátt, að framtaksmenn hafa sumir hverjir haft meiri áhuga á að virkja aðstöðumun í ríkiskerfinu en að stunda samkeppni úti í kuldanum. DeCode Genetics er gott dæmi um slíkt brenglað framtak.
Í stað þess að sækja um ýmis einkaleyfi á jafnræðisgrundvelli almennra regla um verndun uppfinninga hér á landi sem annars staðar, svo og á grundvelli nýlegra Evrópureglna um verndun gagnagrunna, telur DeCode Genetics sig þurfa sérstök einkalög frá Alþingi.
Erlendis stofna menn lyfjaverksmiðjur eða koma á fót gagnagrunnum, ef þá langar til þess og geta fengið fjárfesta til liðs við sig. Þessir aðilar kanna markaðshorfur, en eru ekki að eyða tímanum í að reyna að afla sérstakra forréttinda, sérleyfa eða einokunar umfram aðra.
Til er opinber einkaleyfastofnun, sem starfar eins og hliðstæðar stofnanir á Vesturlöndum. Hún verndar uppfinningamenn og aðra eigendur hugmynda fyrir því um ákveðinn tíma, að uppfinningum þeirra og hugmyndum sé stolið. Hún er hluti af næturvörzlu ríkisvaldsins.
Ríkið á ekkert erindi í framtaki af neinu tagi. Hlutverk ríkisins er að vera næturvörður borgaranna, sjá um öryggi þeirra og setja almennar leikreglur, sem valda því, að allir vita, að hverju þeir ganga. Ríkið má ekki fyrir neinn mun hampa einum umfram aðra í framtaki.
Hlutverk og hlutverkaskipting ríkis og atvinnulífs eru skýr á Vesturlöndum. Hér á landi hefur hins vegar löngum borið á þeirri áráttu að leita skjóls hjá ríkinu, flýja úr kulda frjálsa markaðarins inn í hlýjuna hjá ráðuneytunum, sem geta gefið gæludýrum forréttindi.
Þannig hafa menn fengið einkarétt á að okra á framkvæmdum á Keflavíkurvelli, á farþegum í flugi og með áætlunarbílum, á notendum talsíma og svo framvegis. Vegna þrýstings frá umheiminum hefur slíkur einkaréttur undanfarið verið á undanhaldi hér á landi.
Innst inni vilja embættis- og stjórnmálamenn samt varðveita möguleika sína til að deila og drottna eins og í gamla daga. Þessi árátta er eins áberandi á vegum stjórnmálahreyfinga, sem þykjast vera málsvarar markaðshyggju, og hinna, sem kenna sig við félagshyggju.
Til dæmis er forsætisráðherra orðinn helzti baráttujaxl þeirrar stefnu að gefa DeCode Genetics sérstaka aðstöðu í skjóli ríkisins og stendur í því skyni í ofbeldishneigðum bréfasendingum til læknafélagsins. Hann er orðinn einn helzti fjandmaður markaðshyggjunar.
Á sama tíma er heilbrigðisráðherra að baða sig í þeim órum, að hún og ráðuneytið hafi eitthvað að leggja til lyfjaverksmiðju suður á Möltu, sem kemur íslenzkum veikinda- eða heilbrigðismálum ekkert við og á bara að vera hefðbundið áhættumál hins frjálsa markaðar.
Meðan kjósendur sætta sig við, að stjórnmálamenn trufli gangverkið með sérstökum forréttindum gæludýra, fáum við seint öflugan markaðsbúskap hér á landi.
Jónas Kristjánsson
DV