Stjórnmálaflokkarnir hafa svikizt um að jafna atkvæðisrétt þjóðarinnar, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar talsmanna þeirra í haust, er ungliðahreyfingar þeirra tóku sig saman um að heimta efndir á gömlum og endurteknum loforðum um verulegar úrbætur fyrir kosningar.
Jöfnun atkvæðisréttar er sparimál, sem stjórnmálamenn flagga með, þegar þeir telja sig þurfa á hátíðlegri hræsni að halda. Þeir meina hins vegar ekkert með því, svo sem dæmin sanna. Það gildir nokkurn veginn jafnt um alla þingflokka og þingmenn allra kjördæma.
Sem dæmi um markleysu málflutnings pólitíkusa um jöfnun atkvæðisréttar er, að þingmannsefni Framsóknarflokksins í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi telja sér opinberlega til tekna að styðja jöfnun atkvæðisréttar, þótt málið hafi alltaf verið eitur í beinum flokksins.
Frambjóðandi, er velur sér Framsóknarflokkinn sem vettvang, er um leið að samþykkja annað helzta baráttumál flokksins um áratugi, varnarstríð hans gegn jöfnun atkvæðisréttar. Hitt baráttumálið er að skattleggja Reykvíkinga og Reyknesinga um milljarða upp í landbúnað.
Að vísu hafa aðrir stjórnmálaflokkar í auknum mæli komið sér fyrir á sagnfræðilegum málefnagrunni Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkinn má raunar telja stærsta framsóknarflokk þjóðarinnar um þessar mundir. Það hefur komið fram í stóru og smáu í vetur.
Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins stjórnaði aðgerðaleysi þingflokka í vetur í undirbúningi breytinga á kosningalögum. Honum var falið það veigamikla hlutverk að sjá um, að ekkert yrði úr jöfnun atkvæðisréttar að þessu sinni. Hann er dæmigerður framsóknarmaður.
Hvenær sem hagsmunamál neytenda koma til kasta Alþingis stendur þingflokkur sjálfstæðismanna nánast heill og órofinn gegn hagsmunum neytenda. Flokkurinn leggur til dæmis til sem landbúnaðarráðherra þann þingmann, sem mest allra er andvígur neytendum.
Í jólaösinni á þingi í vetur sá Sjálfstæðisflokkurinn um, að forræði innflutningstolla á matvöru yrði hjá landbúnaðarráðherra. Þá var einmitt vitað, að hann ætlaði að setja 300-800% toll á innflutt matvæli, þegar innflutningsbann félli niður vegna gerðra fjölþjóðasamninga.
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stóðu raunar engan veginn einir að þessu máli. Ofbeldið gegn neytendum naut stuðnings allra þingmanna allra flokka. Sérhagsmunirnir ráða ferð allra flokka á sviði neytendamála jafnt sem á sviði jöfnunar atkvæðisréttar.
Framsóknarmenn allra þingflokka eiga auðvelt með að sannfæra sjálfa sig um, að ýmis raunveruleg ljón séu á veginum í góðri viðleitni þeirra við að jafna atkvæðisréttinn. Nú síðast virðast þeir hafa talið sér trú um, að ekki væri tími til að breyta kosningalögunum með sóma.
Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Ekkert bannar, að Alþingi sitji fram að kosningadegi. Ekkert bannar heldur, að Alþingi starfi, þótt þing Norðurlandaráðs sé á sama tíma. Slíkt hefur raunar komið fyrir og olli engum truflunum á, að veizluskandinavisminn hefði sinn gang.
Það hentaði hins vegar þjóðarleiðtogunum að telja verkalýðsrekendum trú um, að þingstörfum yrði að ljúka í þessari viku. Þeim var talin trú um, að þeir mundu missa af hlut ríkisins í sáttinni, ef Alþingi fengi ekki tækifæri til að afgreiða málið strax í þessari viku.
Í vetur hefur sézt í ýmsum málum, að blekkingar og sjálfsblekkingar eru hornsteinn stjórnmálanna. Jöfnun atkvæðisréttar er fórnarlamb þess andrúmslofts.
Jónas Kristjánsson
DV