Þeir vilja ná í fé þitt

Greinar

Stöðugt verðlag hefur ríkt hér á landi um margra missera skeið. Það á sér ýmsar forsendur, meðal annars samdrátt í efnahagslífinu. Höfuðforsenda stöðugleikans er þó verðtrygging fjárskuldbindinga, sem gerði það að verkum, að niður féll verðbólgugróði af fengnum lánum.

Á verðbólguárunum streymdi fé frá almenningi og lífeyrissjóðum, sem lögðu fyrir, og rann í hendur þeirra, sem pólitíska aðstöðu höfðu til að fá lán í bönkum og öðrum ríkisreknum fjármálastofnunum. Þá snérist líf og dauði í atvinnulífinu um forgang að ódýrum lánum.

Um nokkurt skeið hafa litlir möguleikar verið á að nýta pólitíska aðstöðu til að græða á óheftum aðgangi að fjármagni. Vextir og verðtrygging hafa gert fjármagn verðmætt á nýjan leik. Forráðamenn fyrirtækja þurfa að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir taka lán.

Mörgum hefur orðið hált á svelli stöðugleikans. Frægasta dæmið er auðvitað Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem gufaði upp og hvarf, þegar það hætti að geta lifað af eiturlyfinu sínu, aðgangi að ódýrum lánum, sem brunnu upp. Það þoldi alls ekki verðtryggingu lána.

Sumir hafa farið illa út úr stöðugleikanum, ekki vegna eigin óráðsíu, heldur vegna óráðsíu viðskiptavina sinna. Þannig hafa stór verktakafyrirtæki, sem orðið hafa gjaldþrota, dregið með sér undirverktaka, er áttu sér einskis ills von. Markaðslögmálin geta stundum verið grimm.

Af ýmsum slíkum ástæðum eru fjölmennir hópar andvígir verðtryggingu fjárskuldbindinga og háum vöxtum. Þeir telja, að hag sínum væri betur borgið, ef lán væru ekki verðtryggð og vextir sanngjarnir, svo notað sér orðalag frægs sjóðasukkara, sem nú er Seðlabankastjóri.

Þeir, sem vilja fá að leika sér með ódýrt fjármagn, hafa verið að grafa undan verðtryggingu. Þeir hafa leitað stuðnings hjá þeim hluta almennings, sem átt hefur í erfiðleikum við að standa undir húsnæðislánum. Saman hafa þessir aðilar góðan aðgang að eyrum ráðamanna.

Þegar gæludýrum kerfisins hefur tekizt að stofna til afnáms verðtryggingar í áföngum, ætla þau að nota aðstöðu sína í opinberum peningastofnunum til að komast að nýju yfir ódýrt fé. Þannig munu gæludýrin að nýju framleiða verðbólgu eftir nokkurra missera hlé.

Stjórnarflokkarnir tveir eru hallari undir þessi sjónarmið en aðrir stjórnmálaflokkar. Þess vegna má búast við öllu illu. Raunar hefur ríkisstjórnin þegar skrifað Seðlabankanum bréf um þetta mál og fengið jákvæðar viðtökur hinna pólitískt kjörnu bankastjóra.

Bankastjórar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum leggja nú til, að dregið verði í áföngum úr verðtryggingu fjárskuldbindinga, þannig að eftir fimm ár verði bannað að verðtryggja fjárskuldbindingar, sem eru til skemmri tíma en sjö ára.

Enginn vafi er á, að ríkisstjórnin mun samþykkja þessa tillögu Seðlabankans. Þess vegna sjáum við fram á, að á þessu kjörtímabili muni ekki borga sig að eiga peninga, því að þeir muni rýrna að verðgildi. Við sjáum líka fram á, að óráðsía og verðbóga fari að nýju í gang.

Aðgerðir ríkisstjórnar og seðlabanka í máli þessu eru hættulegar. Þær draga úr núverandi stöðugleika og hvetja til verðbólgu. Þær verða í anda Steingríms Hermannssonar, sem staðið hefur fyrir mestu fjármagnstilfærslum og verðmætabrennslu í sögu lýðveldisins.

Gæludýrin bíða í startholunum. Þau munu nota pólitíska aðstöðu til að ná í ódýrt fé, sem ekki þarf að endurgeiða í jafngildum verðmætum. Það er kjarni málsins.

Jónas Kristjánsson

DV