Þeirra eigin orð í tölvu

Greinar

“Þeirra eigin orð” hét frægur bæklingur, sem var á sínum tíma áhrifamikill í stjórnmálabaráttunni hér á landi. Þar var safnað tilvitnunum, sem meðal annars áttu að sýna, að undir sauðargæru Sósíalistaflokksins leyndist grimmur Stalínsúlfur Kommúnistaflokksins.

Oft getur verið gagnlegt að vekja upp gömul ummæli og bera saman við ný. Það kann til dæmis að hvetja stjórnmálamenn til aukinnar varfærni gegn hinni freistandi áráttu að segja það, sem hentar hverju sinni, til þess að sleppa ódýrt frá burtreiðum hversdagsins.

Á tímum tölvualdar ætti þetta aðhald að verða einfaldara og fljótlegra. Ummæli stjórnmálamanna úr hita leiksins eru mörg hver til á tölvudiskum, svo að fræðimenn þurfa ekki að verja eins miklum tíma og áður til að fletta handvirkt í endalausri röð heimilda.

Til dæmis eru allar fréttir DV og Morgunblaðsins geymdar á tölvudiskum. Í þessum söfnum má láta tölvuna leita sjálfvirkt að ákveðnum orðum eða orðhlutum, sem koma fyrir í texta fréttanna. Þannig má í einu vetfangi fá skrá yfir fréttir og annað efni, sem málið varðar.

Unnt er að fá lista yfir allar tilvitnanir í Steingrím Hermannsson og síðan þrengja listann í þau ummæli, sem varða ákveðin lykilorð í textanum. Þannig má á einfaldan hátt rekja sveiflur, sem verða í yfirlýstum skoðunum þeirra manna, er ráðskast með þjóðina.

Því miður er ekki eins auðvelt að leita í öllu bullinu, sem þjóðarleiðtogar okkar láta frá sér fara í útvarpi og einkum þó í sjónvarpi. Það kostar meiri vinnu, því að leitin verður ekki sjálfvirk, þótt styðjast megi við dagsetningar hliðstæðra ummæla úr söfnum prentaðs máls.

Blaðamenn nota margir upplýsingabanka dagblaðanna í daglegum störfum. Það er til mikilla bóta, því að það leiðir til mun vandaðri og ákveðnari vinnubragða. En æskilegt er, að vaxandi stétt stjórn- og sagnfræðinga fari að líta á þessi gögn í víðara samhengi.

Ekki er nóg að líta aðeins á breytingar, sem verða á ummælum stjórnmálamanna eftir aðstæðum hverju sinni. Einnig er afar brýnt, að rökfræðingar fari að skoða innihald textans og fræða okkur um, hvað gæti hugsanlega falizt í klisjunum og ruglinu, sem flæðir yfir okkur.

Óvíst er, að þjóðin taki nokkurt mark á upplýsingum, sem kæmu út úr vinnu af þessu tagi. En hún hefði ekki sér til afsökunar, að ekki væri aðgangur að slíkum upplýsingum. Og það er fyrsta skrefið í átt til skilnings á, að daglega er verið að plata hana upp úr skónum.

Sagnfræðingar hafa upplýst, hvernig forverar Framsóknarflokksins hvöttu til og stuðluðu að einokunarstefnu Danakóngs til að mjólka tekjur sjávarútvegs til eyðslu í landbúnaði. Þeir hafa upplýst, hvernig Framsóknarflokkurinn margfaldaði kreppuna og kreppuárin.

Þetta eru nýlegar upplýsingar, sem fólk hefur enn ekki áttað sig á. Hún ber enn mest traust til stjórnmálamanna á borð við forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem nota hvert tækifæri til að hverfa aftur til miðstýringar og kreppustefnu Eysteinsáranna.

Stjórnmálamenn okkar hafa margir hverjir lært að misnota sjónvarpið til að rugla kjósendur í ríminu með alls kyns klisjum og fullyrðingum, sem standast ekki skoðun. Þeir koma eins og hvirfilbylur á skjáinn og eru farnir, áður en fólk áttar sig á leikaraskapnum.

En nú má nota tölvutækni til að auðvelda fólki að festa hendur á “þeirra eigin orðum” og þvinga þjóðarleiðtoga til að líta síður á fólk sem auðveidda bráð.

Jónas Kristjánsson

DV